Flugið aftur að komast á áætlun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2022 11:42 • Uppfært 13. jún 2022 11:42
Leiðakerfi Icelandair innanlands á að vera komast aftur á rétt ról eftir miklar raskanir undanfarnar vikur. Fyrirtækið kveðst stöðugt vera að bæta þjónustu sína.
Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku hafa orðið miklar raskanir á flugáætlun Icelandair innanlands síðan í mars. Í síðustu viku var morgunvél frá Reykjavík meira en klukkutíma of sein fjóra daga í röð.
Forsvarsfólk Icelandair hefur bent á viðhald véla og stóraukna eftirspurn eftir að samkomutakmörkunum lauk sem helstu ástæður mikilla raskana á áætlunarfluginu. Í mars fór önnur af stærri vélunum sem sinna innanlandsfluginu í viðhald og þegar hún var búin fór hin út. Sú skilaði sér ekki til baka fyrr en síðustu viku.
Í svari Icelandair við fyrirspurnum Austurfréttar er vísað til þess að vélin hafi komið töluvert seinna úr viðhaldi en áætlað var. Því hafi þurft að notast við minni vélar sem olli talsverðum seinkunum. Vonast er til að áætlunin komist aftur á rétt ról nú þegar báðar stóru vélarnar eru komnar inn í áætlun.
Stærri vélarnar taka helmingi fleiri farþega en þær minni. Að þær vanti í leiðakerfið þýðir færri flugsæti sem hefur þýtt að erfiðra hefur verið en ella að ná flugi. Á sama tíma hefur eftirspurn aukist. Í svari Icelandair er bent á að það tengist fjölgun erlendra ferðamanna, eftirspurnar innanlands og aukinnar atvinnustarfsemi, svo sem stórra kvikmyndaverkefna á landsbyggðinni.
Í svarinu kemur einnig fram að framkvæmdir á innanlandsvöllunum hafi raskað áætlunum Icelandair.
En það sem ekki síst hefur farið í austfirska flugfarþega er að á sama tíma og breytingar verða á flugi með stuttum fyrirvara, virðist lítill sveigjanleiki í þjónustu Icelandair. Þannig fái farþegar ekki endurgreitt ef flugi seinkar þannig þeir missa til dæmis af læknistímum. Þá hafi breytingarnar stundum verið gerðar eftir lokun þjónustuvers þannig farþegum hafi reynst ómögulegt að ná í einhvern hjá félaginu sem veitt gæti aðstoð. Á öðrum tíma hafi ósk um aðstoð kostað mikinn tíma.
Í svarinu segir að vegna raskananna hafi verið mikið álag á þjónustuverið en allt verði gert til að finna lausnir. Markvisst sé unnið að úrbótum á þjónustunni til lengri tíma. Icelandair hafi orðið vart við að farþegar innanlands kalli eftir auknum sveigjanleika en eins og bent hafi verið á hafi ýmsar hindranir verið í vegi félagsins að undanförnu.