„Fögnum allri aukningu til lögreglunnar“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. mar 2023 15:26 • Uppfært 09. mar 2023 15:26
Ekki er ljóst nákvæmlega hvernig efling á löggæslu landsins, sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra kynnti í dag, verða útfærðar fyrir ákveðin embætti. Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi segist fagna aukningu til lögreglunnar.
„Við fáum aukningu en það er ekki ljóst hve mikil hún verður. Við höfum óskir og hugmyndir en þær verða unnar með ráðherra og ríkislögreglustjóra. Við fögnum allri aukningu til lögreglunnar,“ segir Margrét María.
Dómsmálaráðherra kynnti á fundi í dag tillögur um styrkingu lögreglunnar í landinu. Til stendur að bæta við 80 stöðugildum, 30 í almenna löggæslu, 20 við skipulagða brotastarfsemi, 10 í almannavarnir eða sérfræðivinnu, 10 í vinnu við ofbeldis- og kynferðisafbrotamál og loks 10 í landamæravörslu. Í dag eru 27 stöðugildi lögregluþjóna hjá lögreglunni á Austurlandi.
Jón sagði breytingarnar vera til að bregðast við brettu samfélagi. Meira væri um vopnaburð og alvarlegri brot auk þess sem skipulögð glæpastarfsemi, sem virti hvorki landamæri né önnur umdæmismörk, hefði aukist.
Þá hefði landsmönnum og ferðamönnum fjölgað með tilheyrandi álagi um allt land. Víða á landsbyggðinni væri viðbragðstími lögreglu óviðunnandi. Með fjölguninni á viðbragðsgetan í dreifbýli að vera efld verulega.
Þá sagði Jón að fámennari embætti á landsbyggðinni yrðu styrkt með að flytja til þeirra verkefni frá stærri embættum. Jón sagði mikla samstöðu um það en tillögurnar byggja meðal annars á vinnu samráðshóps lögreglustjóra.
Eins er eitt af markmiðunum að fjölga menntuðum lögregluþjónum og á að útskrifa tvöfalt fleiri úr lögreglunámi en gert hefur verið síðustu ár.