Norðfirðingar eru jákvæðir og samheldnir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2023 15:10 • Uppfært 28. mar 2023 15:11
Þórunn Björg Halldórsdóttir, starfsmaður deildar Rauða krossins í Fjarðabyggð, segir Norðfirðinga samheldna í þeim raunum sem þeir ganga nú í gegnum. Tæplega 400 manns hafa þar þurft að yfirgefa heimil sín vegna snjóflóðahættu.
„Við erum að undirbúa kaffi en það eru mjög fáir í húsi. Fólk hefur farið út til að fríska sig upp, einhverjir fengu að fara heim en aðrir fá að sækja dót í hús sín,“ segir Þórunn Björg sem leitt hefur vinnu í fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Egilsbúð.
Fjöldahjálparmiðstöðin er opin fyrir fólk sem ekki getur verið heima hjá sér. Ágætlega gekk að koma fólki í húsaskjól í gærkvöldi og aðeins gistu tvær fjölskyldur í Egilsbúð í nótt. Þær verða líklega þar áfram. Í gærkvöldi var fólki meðal annars komið í gistingu á heimavist Verkmennaskóla Austurlands og hótel Hildibrand. Margt fólk hefur fundið sér eigið gistingu. Þórunn bendir á að nú sé búið að opna veginn inn í Norðfjarðarsveit og þangað hafi einhverjir leitað.
Í fjöldahjálparmiðstöðinni hafa verið máltíðir fyrir fólk að heiman en Hildibrand hefur eldað hádegis- og kvöldmat. Samkvæmt talningu leituðu 429 gestir í miðstöðina í gær.
Þar er einnig veitt áfallahjálp. Fólk frá Rauða krossinum á Akureyri og Egilsstöðum hefur tekið við álaginu af heimafólki. „Við erum aðeins að hvíla okkur en tökum við vaktinni á morgun því við vonum að kvöldið verði rólegt.“
Þórunn Björg segir Norðfirðinga almennt jákvæða og æðrulausa á þessari stundu. „Vissulega er hópur sem þarf að halda vel utan um og það er gert. Við höfum áfallateymi hér sem tekur á móti og fólk þiggur hjálpina.
Fólk er jákvætt, fólk er samheldið og fólk er tilbúið að aðstoða. Allir eru tilbúnir að veita hendi og styðja, fólk spyr hvort það geti hjálpað. Norðfirðingar hafa tekið atburðunum af ró, æðruleysi og þolinmæði. Það var svo magnað að hér ríkti ein heild í gær,“ segir hún.
Fjöldahjálparmiðstöðvar voru einnig opnaðar á Seyðisfirði og Eskifirði í gær. Þeim var lokað í gærkvöldi þegar öllum sem þangað leituðu hafi verið komið í húsaskjól sem voru 75 á Eskifirði en 60 á Seyðisfirði.
Rauði krossinn heldur úti hjálparsíma fyrir fólk sem þarf sálræna aðstoð eða upplýsingar. Opið er allan sólarhringinn og fullum trúnaði heitið. Símanúmerið er 1717.
Mynd: Landsbjörg