Forsetahjónin senda kveðjur austur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2023 10:45 • Uppfært 27. mar 2023 10:46
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, forsetafrú, hafa sent Austfirðingum kveðjur vegna snjóflóða og snjóflóðahættu.
Forsetahjónin sendu frá sér tilkynningu á Facebook nú upp úr klukkan tíu. Þar segjast þau hugsa hlýtt til Norðfirðinga þar sem snjóflóð féll á íbúðarhús á sjöunda tímanum í morgun. Ekki urðu teljandi slys á fólki þar. Gripið hefur verið til rýminga bæði þar og á Seyðisfirði.
„Margt fólk hefur þurft að yfirgefa heimili sín í öryggisskyni og björgunarsveitir sinna mikilvægum störfum, auk annarra á vettvangi. Einnig er verið að rýma hús á Seyðisfirði og hætt er við snjóflóðum á öllum Austfjörðum.
Enn erum við minnt á að við búum í nánd við náttúruöfl sem geta verið óblíð. Ég ítreka góðar kveðjur og þakkir til allra sem sinna nú hjálp í viðlögum,“ skrifa forsetahjónin.
Þau eru væntanleg til Fjarðabyggðar strax eftir páska í fyrirfram skipulagða heimsókn.