Skip to main content

Frostið mun bíta vel fyrir austan fram að jólum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. des 2022 14:41Uppfært 16. des 2022 15:49

„Það verður hæglætisvindur fram á sunnudaginn en svo gæti golan farið að gera vart við sig og jafnvel einhver strekkingur í og með í næstu viku,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni.

Drjúgt frost hefur mælst víðast hvar hér austanlands síðustu vikuna og á því verður framhald alveg til jóla samkvæmt líkönum veðurstofa og líkön Veðurvaktarinnar sýna það sama að sögn Einars. Ekki aðeins er frost að herða heldur og sterkar líkur á töluverðri snjókomu í og með og þá sérstaklega á Héraði

„Það eru engar nýjar fréttir að þegar vindáttin stendur að norðan og frost fer saman við hægviðri þá fer frostið að bíta mjög duglega og þá sýnu mest á Úthéraði og norður til Vopnafjarðar. Segja má að þetta skiptist eiginlega á Fagradal og firðirnir ættu að sleppa betur þó auðvitað verði töluvert frost þar líka.“

Spám almennt ber saman um að frostið verði mest austanlands í dag föstudag og á laugardag en þá daga mun frostið ná hámarki á láglendi í bili. Töluvert á að snjóa í byrjun næstu viku, sérstaklega á þriðjudag en á móti dregur aðeins úr frostinu þangað til á Þorláksmessu þegar frostatölur ná tveggja stafa tölum á nýjan leik.

Töluvert á að snjóa í vikunni fram að jólum um allt austanvert landið. Mynd GG