Fundu þörf til að koma af stað húsnæðisbyggingum í Neskaupstað

Á mánudag var skipað upp í Neskaupstað 24 einingum sem næsta vor verða að alls 16 íbúðum. Byggingafyrirtækið Hrafnshóll reisir húsin að undirlagi Síldarvinnslunnar og SÚN. Framkvæmdastjóri SÚN segir skort á húsnæði hafa staðið í vegi framfara á svæðinu.

„Þegar við hjá Síldarvinnslunni og SÚN fórum að velta fyrir okkur stöðunni fundum við að ekkert væri að gerast í húsbyggingum í Neskaupstað. Við fundum mikla þörf fyrir húsnæði sem stóð annarri þróun fyrir þrifum.

Við vildum hjálpa til og fórum af stað við að ræða við verktaka hér á svæðinu. Við komumst síðar í samband við Hrafnshól sem bauð fram þessa lausn og þá var að hrökkva eða stökkva,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.

Einingarnar eru smíðaðar í Eistlandi og komu hingað til lands með færeyska flutningsskipinu Eystnes. Um er að ræða svokölluð módulhús, einingar úr timbri sem einfalt er að raða saman. Þau eru sérstaklega hönnuð fyrir norðlægar slóðir og hafa reynst vel í Norður-Noregi. Framleiðslan er eftir byggingastöðlum sem Guðmundur segir strangari en íslenskar reglur. Þetta eru önnur módulhúsin sem Hrafnshóll setur upp hérlendis en áður hefur fyrirtækið notast við sömu aðferð í Grindavík.

Einingarnar koma fullbúnar tækjum, svo sem í bað og eldhús en eftir er að steypa sökkul, setja húsin saman og koma á þau þaki, svölum, stigum og slíku. Þótt húsin séu komin hefur orðið smávægileg töf á framkvæmdum. Nú er gert ráð fyrir að grafa og steypa fyrir sökkli eftir áramót og vonast er til að húsin verði tilbúin fyrir sumarið.

Opinbera leigufélagið Brák hefur þegar keypt fjórar íbúðanna. Guðmundur segir mikinn áhuga á húsnæðinu og fjölmarga aðila þegar haft samband. Á mánudag verður haldinn kynningarfundur um húsin og gert ráð fyrir að íbúðirnar verði auglýstar til sölu í næstu viku.

Margt hefur gerst í íbúðabyggingum síðan Síldarvinnslan og SÚN byrjuðu að velta málunum fyrir sér því að meðtöldum íbúðunum í módulhúsunum eru alls 30 íbúðir í byggingu í Neskaupstað.

Einingu skipað á land. Mynd: Síldarvinnslan/Smári


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.