Skip to main content

Fyrsta skóflustungan að nýjum fjölbýlishúsum í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. feb 2023 15:12Uppfært 16. feb 2023 15:14

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í gær fyrstu skóflustunguna að tveimur húsum í Neskaupstað sem alls munu hýsa sextán íbúðir. Bygging húsanna er samstarf fyrirtækja í bænum, ríkis og Fjarðabyggðar.


Um er að ræða svokölluð módulhús úr á einingum sem fluttar voru nánast tilbúnar til landsins. Áætlað er að reisa þær um miðjan mars, þegar jarðvinnu er lokið og uppistöður verið steyptar. Þar sem einingarnar koma tilbúnar á verkið að ganga hratt og þær að rísa á tíu dögum þannig að íbúðirnar verði tilbúnar skömmu eftir páska.

Brák, íbúðafélag í eigu sveitarfélaga, hefur keypt fjórar íbúðir í húsunum. Þær eru fjármagnaðar með stofnframlögum frá ríkinu og Fjarðabyggð og leiguíbúðaláni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Síldarvinnslan hefur keypt fjórar og SÚN fjórar. Þá er stefnt að því að fjórar íbúðir verði seldar með hlutdeildarlánum frá HMS, sem í boði eru fyrir kaupendur að fyrstu fasteign.

Átján íbúðir í Múlaþingi

Hreyfing er komin á húsbyggingar eystra. Samkvæmt tölum frá HMS voru 75 íbúðir í byggingu í september síðastliðnum samanborið við 42 ári fyrr. Á vegum Brákar er verið að byggja tíu íbúðir við Selbrún í Fellabæ sem fjármagnaðar eru á svipaðan hátt og húsin í Neskaupstað, með stofnframlagi sveitarfélags og leiguíbúðaláni HMS. Áætlað er að þær verði tilbúnar til afhendingar í apríl/maí. Við götuna stendur til að byggja alls 40 íbúðir og er næsta skref fimm íbúða raðhús.

Á Seyðisfirði er verið að byggja átt íbúðir fyrir eldri borgara á gamla fótboltavellinum með sama fyrirkomulagi og fyrri húsin. Þar er verið að ljúka við að steypa undirstöður og á húsið sjálft að rísa í kjölfarið.

Leigufélagið Bríet, sem er í eigu ríkisins, hefur einnig komið að uppbyggingu íbúða á nokkrum stöðum á Austurlandi síðustu misseri. Til stendur að félagið byggi upp íbúðir á Eskifirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi innan tíðar.

Þörf áfram

Halda þarf vel áfram, miðað við nýuppfærðar húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna en í þeim er reiknað með meiri mannfjölgun en áður. Áætlað er að byggja þurfi 343 íbúðir á næstu fimm árum. Samkvæmt nýjustu tölum frá HMS eru 118 íbúðir í byggingu á Austurlandi og 12 íbúðir verið fullkláraðar á árinu. Þær voru alls 30 í fyrra. Var það með meira móti en segja má að hlé hafi orðið á nýbyggingu íbúðarhúsnæðis á Austurlandi eftir að stóriðjuframkvæmdum lauk árið 2008.

Frá skóflustungunni í gær. Mynd: Innviðaráðuneytið