Fyrstu íbúðirnar frá Brák afhentar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. feb 2023 13:14 • Uppfært 13. feb 2023 13:14
Brák íbúðafélag, óhagnaðardrifið leigufélag í eigu íslenskra sveitarfélaga, fékk nýverið fyrstu íbúðir sínar í Fjarðabyggð afhentar og þær fyrstu á vegum félagsins á Austurlandi.
Íbúðirnar eru fimm talsins í raðhúsi, sem byggingafélagið Hrafnshóll reisti, á Búðarmel Reyðarfirði.
„Þessar 5 íbúðir hér að Búðarmel á Reyðarfirði eru fyrstu íbúðir félagsins á Austurlandi en 22 íbúðir verða teknar í notkun Austurlandi og í heildina 32 íbúðir á landinu öllu á þessu ári,“ er haft eftir Snorra Styrkárssyni, formanni stjórnar Brákar og fjármálastjóra Fjarðabyggðar, í tilkynningu.
„Við í stjórn Brákar eru mjög stolt af þessu árangri sem félagið hefur náð á rétt tæpu ári frá stofnun félagsins. Markmiðið félagsins er að tryggja leigumarkað íbúðarhúsnæðis um allt land með hagkvæmum byggingum fyrir tekju lægri hópa landsins.“
Brák íbúðafélag var stofnað í mars í fyrra til að stuðla að auknu hagkvæmi leiguíbúða á landsbyggðinni og byggingu þannig leigjendum sé tryggt öryggi á leigumarkaði á hagstæðum kjörum. Það var stofnað af 31 sveitarfélagi sem gátu lagt inn í það almennar íbúðir.
Íbúðirnar á Reyðarfirði eru byggðar samkvæmt lögum um almennar leiguíbúðir og njóta stofnframlaga frá ríki og Fjarðabyggð. Þær eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar kemur að úthlutun íbúðanna til leigjenda.
Brák er nú með 40 íbúðir í byggingu víða um land, til að mynda fjórar í Neskaupstað, átta á Seyðisfirði og tíu í Fellabæ.
Frá afhendingu, frá vinstri: Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri, Einar Skúli Hjartarson byggingastjórri, Hjördís Helga Seljan forseti bæjarstjórnar, Snorri Styrkársson formaður stjórnar Brákar og Ómar Guðmundsson framkvæmdastjóri Hrafnshóla. Myndir: Fjarðabyggð
