Gagnrýnir stóraukinn kostnað vegna hreinsivirkis að Melshorni
Samkvæmt nýjum gögnum frá sérstökum ráðgjafa vegna hugsanlegs kostnaðar við nýtt hreinsivirki við Melshorn á Egilsstöðum gerir uppfært kostnaðarmat ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þess fari langleiðina í einn milljarð króna eða rétt tæplega 950 milljónir króna á núvirði.
Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn og byggðaráði Múlaþings, Þröstur Jónsson, telur aldeilis fráleitt að fara í svo kostnaðarsamar aðgerðir fyrir fámennt sveitarfélag en uppfærður kostnaður við hreinsivirkið er að lágmarki 250 milljónum króna hærri en gengið hefur verið út frá síðustu árin.
Þröstur ekki einn um að gjalda varhug við breyttum kostnaðaráætlunum vegna nýrrar hreinsistöðvar því stjórn HEF (áður Hitaveita Egilsstaða og Fella) lét bóka nýverið að „brýn ástæða sé til að fara vel yfir nýjustu kostnaðaráætlun, þar sem hún sé verulega hærri en sú áætlun sem unnið hefur verið með hingað til.“
Þröstur segir aðspurður að rík ástæða sé til að HEF og aðrir málsaðilar leiti allra leiða til að fá því breytt að Lagarfljót sé skilgreint sem viðkvæmur viðtaki samkvæmt reglum ESB sem Íslendingum ber að fylgja. Sé affalli beint í ár eða fljót sem bera þann stimpil skal hreinsa allt eins vel og framast er unnt með nýjustu aðferðum sem flokkast formlega í eins þrepa, tveggja þrepa eða þriggja þrepa hreinsun.
„Það sem svíður mjög í þessu tilfelli er að Lagarfljót, þetta jökulfljót, ætti að öllu eðlilegu að flokkast sem „síður viðkvæmur viðtaki.“ Fljótið er nánast gjörsamlega líflaust og margbúið að sýna fram á að það breytir litlu hvort hér er sett eins þrepa hreinsun eða tveggja þrepa hreinsun. Mig minnir að það hafi verið 2015 þegar kemur reglugerð frá Evrópusambandinu þess efnis að allt ferskvatn skuli flokkast sem viðkvæmur viðtaki og þingið veitti því brautargengi og það urðu lög. Það þrátt fyrir að Evrópusambandið viti ekki einu sinni hvað jökulfljót er. Þess vegna kemur krafan um tveggja þrepa hreinsun frá Egilsstöðum. Kostnaðarmunurinn á eins þrepa hreinsun og tveggja þrepa hreinsun í þessu tilviki eru yfir 400 milljónir króna.“
Þröstur segist hafa rætt við fræðinga verkfræðistofunnar EFLU sem hafa fullvissað hann um að eiturefni á borð við örplastagnir náist með eins þrepa hreinsun. Ekki sé þörf á frekari hreinsun en það.
„Það má ekki gleyma að stærsti hluti affallsins er hrein og beint seyra sem er ekki hættulegt efni í neinu tilliti.“
Hreinsistöðin umrædda verður staðsett á Melshorn aðeins 130 metrum frá byggðinni á Egilsstöðum. Mynd EFLA