Gamla frystihúsið rifið

Síðan um páska hefur verið unnið að því að brjóta niður veggi gamla frystihússins á Eskifirði og er verkið nú langt komið.

Fyrir tveimur árum höfðu Eskja og Fjarðabyggð skipti á eignum. Eskja fékk gömlu Hulduhlíð, fyrrum dvalarheimili, sem hefur verið notuð sem verbúð en Fjarðabyggð eignaðist fyrrum skrifstofur Eskju og lóðina sem frystihúsið stendur á. Samkvæmt samningum átti Eskja að rífa frystihúsið og ganga frá lóðinni.

Gamla verbúðin var rifin í fyrra, síðan frystiklefinn og eftir páska var byrjað að brjóta niður veggi frystihússins sjálfs. Samkvæmt upplýsingum frá Eskju er vonast til að því ljúki sem fyrst en ljóst er að það dregst eitthvað fram eftir þessum mánuði.

Framan á frystigeymslunni var listaverk eftir Baltasar Samper. Það var tekið niður og verður geymt þar til verðugur staður finnst fyrir það á ný.

Samkvæmt fasteignaskrá er elsti hluti frystihússins frá árinu 1946. Byggt var við það árin 1959 og aftur 1974 auk bryggju með plani 1954 og frystigeymslu utan við húsið árið 1982. Eskja hefur síðustu misseri byggt upp nýtt athafnasvæði á landfyllingu innst í firðinum, á leirum.

Skrifstofubyggingin stendur áfram þótt nýtt hlutverk hennar sé ekki enn ljóst. Framundan er gerð nýs skipulags fyrir miðbæ á Eskifirði án frystihússins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.