Góð samvinna við Condor um markaðssetningu á beina fluginu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. feb 2023 13:31 • Uppfært 22. feb 2023 14:06
Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir góða samvinnu milli Austurbrúar, Markaðsstofu Norðurlands og þýska flugfélagsins Condor um markaðssetningu áætlunarflugs félagsins í sumar milli Frankfurt og annars vegar Egilsstað, hins vegar Akureyrar.
„Við vinnum með Condor að vitundinni á Austurlandi. Það hefur gengið vel og samskiptin eru mikil. Stór hópur úr ólíkum deildum Condor kemur að þessu verki.
Félagið er með sínar herferðir á þýskum markaði en við aðstoðum við ljósmyndir og efni til kynningar,“ segir Jóna Árný.
Margir aðilar koma að markaðssetningunni
Clea Braun, viðskiptastjóri Condor, kom á ferðaráðstefnuna Mannamót í síðasta mánuði sem að þessu sinni var haldin í Kórnum í Kópavogi. Markaðsstofur landshlutanna standa að viðburðinum til að kynna vöru og þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja af landsbyggðinni fyrir innlendum sem erlendum kaupendum. Sýningin í ár var sú stærsta frá upphafi með 220 aðilum, þar af 21 frá Austurlandi og gestir um 800 talsins.
„Það var gríðarlega gott að fá hana og hún var ánægð með að taka stökkið. Ég hringdi í hana og sagði henni að mæta. Hún sá hvernig við kynnum landshlutann og svo áttum við með henni heilan sólarhring í alls konar umræðum um markaðsmál.“
Austfirðingarnir hafa líka farið utan, meðal annars voru kynningar í Berlín fyrir jólin. „Við erum búin að fara tvær ferðir, þar sem við höfum meðal annars talað við þýskar ferðaskrifstofur. Bæði Austurbrú og Markaðsstofa Norðurlands verða á ITB Berlin, einni stærstu ferðakaupstefnu heims, til að fylgja eftir samtölum sem við höfum átt undanfarna mánuði. Hingað koma líka í vor þýskir blaðamenn og fulltrúar ferðaskrifstofa í ferðir,“ segir Jóna Árný.
Samstarfið nær líka víðar en bara til markaðssetningarinnar. „Við erum í reglulegu samtali við starfsfólk flugvallanna þannig að allt gangi snurðulaust fyrir sig í fyrstu flugunum. Við erum samhæfingaraðili á Íslandi en síðan hafa Íslandsstofa og fleiri aðilar verið virkjaðir. Það leggja allir sitt af mörkum til að þetta gangi vel og samstarfið gengur vel.
Condor stækkaði vélarnar
En markaðssetningin snýr líka að innanlandsmarkaðinum. „Við vinnum að þessu því það eru lífsgæði fyrir Austfirðinga að geta farið beint til eins stærsta flugvallar Evrópu og þaðan áfram til um 300 borga. Við höfum gengið út frá því að heimamaðurinn vilji tenginguna út í heim. Nú er hún komin og þá er bara að bóka.“
Skömmu fyrir jól var skýrt frá því að Condor hefði ákveðið að stækka flugvélarnar sem fljúga til Egilsstaða. „Vegna áætlana og hvaða vélar eru tiltækar ákvað Condor að nota A321 flugvélar í stað A320 í þessi flug. Við hlökkum til að taka flugið í sumar og við sjáum eftirspurn eftir þessum leiðum,“ segir Johanna Tillmann, talsmaður Condor í svari við fyrirspurn Austurfréttar um breytinguna.
Jóna Árný segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um bókunarstöðuna að öðru leyti en því að enn séu laus sæti í báðar áttir. Alltaf sé átak að hefja flug á nýrri leið. „Við erum að leggja grunn að nýrri ferðaþjónustu þar sem fólk kemur beint inn á svæðið og getur þar með dvalið lengur. Eins og með annað sem er nýtt þá þarf að hafa fyrir því að fólk til að brjóta vanann. Það er allra, ekki bara örfárra.“
Jóna Árný, Clea Braun frá Condor og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á mannamótum. Mynd: Austurbrú