Skip to main content

Greiddu atkvæði gegn ráðningu Jóns Björns

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. jún 2022 17:01Uppfært 07. jún 2022 17:02

Minnihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar bókaði óánægju með að ekki lægi fyrir ráðningarsamningur við bæjarstjóra á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar á föstudag og greiddi atkvæði gegn honum. Samningurinn verður afgreiddur af bæjarráði.


Áframhaldandi ráðning Jóns Björns Hákonarsonar, oddvita Framsóknarflokks, var síðasta málið á dagskrá fundarins á föstudag. Hann hefur gegnt starfinu frá haustinu 2020. Hjördís Helga Seljan, nýkjörinn forseti bæjarstjóri, kynnti málið og lagði fram tillög um ráðningu Jóns Björns.

Fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokks mynda minnihluta á móti meirihluta Framsóknar og Fjarðalista. Fulltrúar minnihlutans greiddu allir atkvæði gegn ráðningunni.

„Við höfum átt ágætt samstarf við Jón Björn Hákonarson, bæði síðastliðið kjörtímabil og alla tíð. Við teljum hins vegar að nú hefði verið réttast að fara aðrar leiðir og ráða faglegan bæjarstjóra,“ sagði Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, þegar hann kynnti afstöðu listans.

Þá er í bókun fulltrúanna gerðar alvarlegar athugasemdir við að ekki hafi legið fyrir skriflegur ráðningarsamningur á fundinum, áður en greidd voru atkvæði um ráðninguna. Það væri sérkennilegt, bæði í ljósi fordæma fyrri bæjarstjórna en einnig þar sem um endurráðningu væri að ræða og því átt að vera hægt að láta núverandi samning fylgja með.

Þess vegna séu engin gögn um ráðningartíma, gildistíma eða önnur kjör og því erfitt að taka efnilega ákvörðun um ráðninguna. Að öðru leyti óskuðu fulltrúarnir Jóni Birni velfarnaðar í starfi.

Tillagan um ráðninguna var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans. Ráðningarsamningurinn verður lagður fram í bæjarráð sem gengur frá honum endanlega.

Ný bæjarstjórn Fjarðabyggðar við upphaf fyrsta fundar. Mynd: Fjarðabyggð/Pétur Sörensson