Greina tækifæri í betri nýtingu orku og hliðarafurða úr framleiðslu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2023 10:15 • Uppfært 17. feb 2023 10:15
Íslenska ríkið, Landsvirkjun, Austurbrú og sveitarfélögin á Austurlandi hafa sameinast um að verja 240 milljónum í nýsköpun, sem byggir á bættri nýtingu hráefnis og orku á svæðinu á næstu fjórum árum. Verkefnið kallast Eygló og byggir á verkefnum sem gefist hafa vel annars staðar á landinu. Vonast er til að verkefnið dragi enn meira fjármagn inn í fjórðunginn.
„Ég finn gríðarleg tækifæri í þessu. Þetta er í takt við nýsamþykkt svæðisskipulag Austurlands um að takast á við hringrásarhagkerfið og áskoranir í loftslagsmálum. Um allt Austurland eru hliðarafurðir hjá fyrirtækjum sem vinna má betur með.
Nú kemur fjármagn til að stíga þessi skref með fyrirtækjunum og greina betur þessar afurðir. Úr þeim geta orðið gríðarleg verðmæti sem ég er spennt að sjá,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í viðtali í Austurglugga vikunnar.
Hún segir engin ákveðin fyrirtæki komin inn í verkefnið, en nefnir þó hliðarafurðir frá sjávarútvegi auk þess sem mikill varmi falli til við starfsemi umbúðaverksmiðju Bewi-Iceland á Djúpavogi. Berglind Harpa bendir einnig á áskoranir í orkumálum kaldra svæða.
Meira fjármagn með þátttöku í samstarfsverkefnum
Heitið Eygló vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar og bjartrar og kraftmikillar framtíðar. Sambærileg verkefni eru í gangi í öðrum landshlutum og hafa gefist vel, Eimur á Norðurlandi, Orkídea á Suðurlandi og Blámi á Vestfjörðum.
„Við höfum séð í systurverkefnunum að þau hafa öll vaxið að umfangi frá stofnun, fjölgað starfsfólki og tekið þátt í stærri rannsóknum og þróunarverkefnum. Þar höfum við dregið að okkur fleiri rannsóknarstofnanir og vísindamenn. Við vonumst til að það gerist ekki síður hér,“ segir Sigurður H. Markússon, framkvæmdastjóri nýsköpunar hjá Landsvirkjun.
Það sama segir Berglind Harpa. „Við höfum sett mikið fjármagn í verkefnið í þessu skrefi, en við vonumst líka til að stíga þau skref með fyrirtækjunum að sækja um frekari styrki. Þeir hafa verið mjög stórir í hinum verkefnunum. Við fáum fjármagn til að ráða tvo starfsmenn sem fara markvisst í þá vinnu að finna þessi tækifæri með okkur,“ segir hún.
Störfin verða auglýst á næstunni. Þau verða hýst hjá Austurbrú, en verða annars án staðsetningar. „Þetta er gríðarlegur slagkraftur sem við fáum strax. Ég hlakka til að sjá afurðirnar.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra skrifaði undir fyrir hönd ráðuneytisins. „Við verðum að finna lausnir í grænni orku. Víða um land liggur á að finna hana. Við þurfum líka að fara betur með orkuna. Eins getum við gert miklu betur í hringrásarlausnum. Við þekkjum það úr sjávarútveginum, við nýtum fiskinn allan á meðan við hentum helmingnum áður. Við þurfum bæði að nýta lausnir sem við höfum þekkingu á en líka finna nýjar. Á ýmsum vandamálum eru til lausnir sem miða við þéttbýli, mun þéttbýlli svæði en höfuðborgarsvæðið.“
Fulltrúar frá Vopnafjarðarhreppi, Múlaþingi, Fljótsdalshreppi, Fjarðabyggð, Austurbrú, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytinu við undirritun samningsins í Fljótsdalsstöð.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.