Skip to main content

Gríðarleg aukning ferðafólks að Hengifossi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. jún 2022 09:22Uppfært 13. jún 2022 09:24

Ferðalangar sem gerðu sér ferð upp að Hengifossi í Fljótsdal í maímánuði reyndust hvorki meira né minna en 60 prósent fleiri en í sama mánuði árið 2019.

Þetta staðfestir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, og vísar þar til teljara sem finnst á leiðinni upp að fossinum. Í maímánuði 2019, sem var eitt af allra stærstu árum í ferðaþjónustu, heimsóttu fimm þúsund manns Hengifoss. Í liðnum maí mældist fjöldinn átta þúsund svo uppsveiflan er afar skörp.

Fljótlega stendur til að ljúka samningum um byggingu þjónustuhúss fyrir neðan fossinn en það hefur tafist verulega. Stóðu vonir upphaflega til að þeirri smíði yrði lokið fyrir sumarvertíðina í ferðaþjónustu en nú gera menn sér vonir um að verkinu ljúki fyrir næstu áramót svo hægt verði að taka mót gestum með prýði á næsta ári.