Gríðarlegt álag á veitukerfi Fjarðabyggðar en vandræðalaust hingað til
„Álagið í dag er svona með því allra mesta sem við höfum séð en ekki horfir til vandræða að stöddu því við ráðum við þetta,“ segir Svanur Freyr Árnason, forstöðumaður Veitna í Fjarðabyggð.
Kuldaboli er að gera mjög vart við sig þennan daginn jafnvel þó ekki hafi ræst spár fyrr í vikunni um allt að 20 stiga frost á láglendi á Egilsstöðum og Reyðarfirði svo tvö dæmi séu tekin. Frostið hefur reyndar náð allt að fimmtán stigum víða á Héraði og á Fagradal en er aðeins skaplegra á fjörðunum samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands.
Svanur segir enga hættu á að ekki verði nægt heitt vatn til að kynda heimili og fyrirtæki því enn sé borð fyrir báru í kerfinu.
„Við erum að ráða við þetta og svo ræðst það bara næstu dægrin hvernig fer. Við erum auðvitað að vakta þetta alls saman, gerum það áfram alla helgina og framhaldið ræðst af hversu grimmt frostið verður og vindum líka. Við metum þetta dag frá degi meðan að frostið er svona mikið en reyndar mun það eitthvað að ganga niður miðað við síðustu veðurspár. En eins og staðan er núna er þetta allt að ganga upp þó vissulega hafi álagið sjaldan eða aldrei verið meira.“