Gul viðvörun fyrir Austfirði á morgun og hinn

Veðurstofan hefur í þriðja sinn á rúmri viku gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna snjókomu og skafrennings. Veðrið gengur ekki niður af alvöru fyrr en um það leyti sem nýárið gengur í garð.

Veðurstofan gaf í morgun út viðvörun fyrir Austfirði sem tekur gildi klukkan ellefu í fyrramálið og gildir út fimmudag, 29. desember. Á þessum tíma er spáð norðaustan 13-20 m/s með snjókomu. Búast má við skafrenningi, lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum.

Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að væntanlega gangi fyrst í veðri syðst á svæðinu og þar verði orðið býsna hvasst um hádegið. Um svipað leyti verði farið að hvessa norðar á svæðinu og áfram bæti í vind og úrkomu fram eftir degi.

Hann segir í kortum Veðurstofunnar lítinn mun að sjá milli svæða innan spásvæðisins. Útlit sé fyrir að vindur standi mest úr norðaustri en einnig mögulega norðri.

Fyrir Austurland að Glettingi er spáð 8-13 m/s með éljum eða snjókomu. Heldur hvassara gæti orðið á því svæði á fimmtudag. Skoðað verður á morgun hvort ástæða sé til að gefa út viðvörun fyrir það spásvæði á fimmtudag.

Þótt viðvörunin gildi aðeins út fimmtudag er viðbúið að eftirköstin vari lengur því Marcel segir að ekki dragi úr vindi af alvöru fyrr en seint á föstudag og laugardag.

Víða eru miklir snjóruðningar meðfram vegum og í götum eftir snjókomuna undanfarna viku. Snjórinn er laus í sér og því verður fljótt illfært þegar vind hreyfir þannig að snjó skefur í.

Ofanflóðadeild Veðurstofunnar telur töluverða hættu á snjóflóðum til fjalla á Austurlandi. Snjóflóð féll á veginn um Fagradal í gær sem tafði fyrir að vegurinn væri opnaður. Þá féll lítið flóð í Hólmatindi á Þorláksmessu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.