Gular viðvaranir í gildi fram eftir morgni

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir Austurland og Austfirði fram eftir morgni. Viðvaranirnar voru gefnar út seint í gærkvöldi en meiri hlýindi og rigning hafa verið á svæðinu en spáð hafði verið.

Viðvörunin fyrir Austfirði er að falla úr gildi nú klukkan átta en fyrir Austurland að Glettingi stendur hún til klukkan níu. Upphaflega hafði aðeins verið gefin út viðvörun fyrir Austfirði sem átti að standa í gærkvöldi og rétt fram yfir miðnætti.

Undir kvöldmat í gær var hins vegar breytt um og viðvaranirnar gefnar út vegna hvassviðris og úrkomu sem falla myndi sem rigning á láglendi en snjór til fjalla.

Búið var að spá hlýindum og rigningu í nótt en að lokum varð hitinn hærri, rigningin meiri og stóð lengur en spáð var. Töluvert hefur rignt á til dæmis bæði Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Á síðarnefnda staðnum var níu stiga hiti klukkan sex í morgun og átta stig í Vopnafirði samkvæmt gögnum Veðurstofunnar.

Samfara hlýindunum hefur orðið mikið hláka og töluvert af þeim snjó sem fallið hefur síðustu tvær vikur er bráðnaður. Það skilar sér vitaskuld í leysingum og í gær varaði ofanflóðadeild Veðurstofunnar við krapaflóðum, einkum á Suðausturlandi. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nein slík flóð enda ekki tekið að birta.

Veðráttan veldur einnig hálku á vegum, þannig hefur Vegagerðin varað við að flughált sé fyrir innan Egilsstaði og á Jökuldalsheiði. Fjarðarheiði er merkt lokuð en unnið að mokstri. Vatnsskarð er sömuleiðis ófært.

Þótt viðvaranirnar séu að falla úr gildi þá er spáð hlýju og rigningu með nokkrum vindi fram undir hádegi. Þá frystir aftur og styttir að mestu upp og áfram verður strekkingsvindur þótt aðeins lægi.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.