Gular viðvaranir seinni partinn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. jan 2023 12:34 • Uppfært 22. jan 2023 12:37
Gular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði frá klukkan fjögur í dag fram til miðnættis.
Lægð fyrir vestan land dýpkaði skyndilega í gær og voru þá gefnar út viðvaranir fyrir vestanvert landið. Þær voru endurmetnar í morgun um leið og viðvaranir voru gefnar út fyrir restina af landinu.
Á báðum spásvæðum er búist við suðvestan og vestan 15-23 m/s. Í spánni fyrir Austfirði segir að hvassast verði norðan til en á Austurlandi er varað við éljum og þar af leiðandi slæmu skyggni á fjallvegum.
Fólk er hvatt til að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og færð.