Hæst hlutfall háskólamenntaðra í Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. feb 2023 14:18 • Uppfært 16. feb 2023 14:28
Hlutfall háskólamenntaðra á Austurlandi er hæst í sveitarfélaginu Múlaþingi. Menntunarstig Austfirðinga hefur hækkað nokkuð undanfarinn áratug.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar. Menntunarstig á Austurlandi er svipað og í öðrum landshlutum. Á svæðinu eru 23% háskólamenntuð og 36% með framhaldsskólamenntun. 41% hafa lokið grunnnámi, sem er næst hæsta hlutfallið á eftir Suðurnesjum.
Nýju tölurnar miða við skráningu árið 2021. Samanborið við árið 2011 hefur menntunarstigið hækkað nokkuð, háskólamenntuðum hefur fjölgað. Lítil breyting hefur þó orðið á hlutfalli fólks með starfsmenntun.
Sé horft til einstakra sveitarfélaga þá er hlutfall háskólalærðs fólks hæst í Múlaþingi, 28% en var 20% fyrri áratug. Háskólamenntuðu fólki hefur einnig fjölgað töluvert á Vopnafirði og í Fljótsdal.
Á flestum stöðum er hlutfall fólks með starfsmenntanám svipað. Það lækkar í Fljótsdal, en vegna mannfæðar þar skapa fáir einstaklingar of miklar sveiflur hlutfallslega. Fjarðabyggð sker sig úr að því leyti að menntastig þar, hvort sem horft er til starfsnáms eða háskólanáms, breytist nánast ekkert á þessum áratug.
Heilt yfir eru konur á svæðinu töluvert líklegri til að vera með háskólanám að baki heldur en karlar meðan þeir virðast hafa sótt í starfsnámið.
Eingöngu er miðað við einstaklinga 25 ára og eldri.