Hætt að urða frauðplast úr Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. feb 2023 15:46 • Uppfært 09. feb 2023 16:53
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur fengið búnað þannig hægt er að útbúa frauðplast til endurvinnslu. Tugir gáma af frauðplasti þaðan hafa verið urðaðir árlega.
Endurvinnslan er í samvinnu við Brim hf. og dótturfyrirtæki þess, Emblu Green Solutions. Á móttökustöð Fjarðabyggðar á Reyðarfirði er komin vél sem tekur á móti frauðplasti. Hún lætur ekki mikið yfir sér en pressar plastið saman um 95-98%. Félögin hafa um hríð unnið saman að snjalllausnum í úrgangsmálum.
Vélin var gangsett í byrjun vikunnar eftir að fulltrúar fyrirtækisins komu austur til að kenna starfsmönnum sveitarfélagsins á hana. „Þetta er fyrsta skrefið af mörgum í úrgangsmálum og í anda hringrásarhagkerfisins,“ segir Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar.
„Ávinningurinn er mikill því í Fjarðabyggð hafa á hverju ári verið urðaðir milli 40 og 50 gámar af frauðplasti,“ bætir hann við.
Eftir að frauðplastið hefur verið pressað verður það flutt til Svíþjóðar til endurvinnslu. Úr því eru meðal annars kverklistar en einnig er farið að endurvinna það að fullu og meðal annars nota til að vernda ný raftæki. Marinó segir plastið þurfa að vera þurrt áður en það er pressað og því hreinna sem það er því betri verið lokaafurðin.
Lítið er um endurvinnslu frauðplasts á Íslandi í dag og víða er það einfaldlega sagt óendurvinnanlegt í flokkunarleiðbeiningum. Í Fjarðabyggð eru hins vegar sérstakir gámar fyrir plastið á móttökustöðum.
Mikilvægt að samstarf komist á
Marinó vonast til að fleiri sveitarfélög, sem og fyrirtæki og íbúar á svæðinu taki þátt í verkefninu. „Við hvetjum stóru fyrirtækin og nágrannasveitarfélög til að koma með okkur í þetta verkefni. Ef það hafa fallið til 40-50 gámar í Fjarðabyggð er viðbúið að 100 gámar á Austurlandi af frauðplasti séu urðaðir árlega.
Það er mikilvægt að sveitarfélögin sameinist umlausnir. Við getum tekið þetta að okkur en síðan geta hin tekið önnur verkefni. Við höfum unnið þetta verkefni með Brimi sem vandlega hefur flokkað úrgangsefni frá starfseminni á Vopnafirði og sér fyrir sér að koma með plastið hingað.“
Fylgst með samsetningu sorps
Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að snjalllausnir úrgangs byggi á að streyma upplýsingum um losun með rafrænum hætti. Í Fjarðabyggð var komið upp rafrænni skráningu fyrir rúmu ári þar sem upplýsingar streyma inn í umhverfisgagnagrunn um leið og úrgangur er viktaður, hvort sem um er að ræða úrgang til urðunar eða til endurvinnslu.
Allt endurvinnsluhráefni er skráð eftir skilgreindu flokkunarkerfi og umhverfisgrunnur úrgangs heldur síðan utan um alla skráningu: magn, tegund, úrvinnsluleið og uppruna á almennum úrgangi. Þetta hjálpar sveitarfélaginu að vinna markvisst að því að lágmarka hlutfall almenns úrgangs og hámarka endurvinnsluhlutfallið.