Skip to main content

Hafa hug á að gera garð við Fossahlíð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2022 15:07Uppfært 06. des 2022 15:09

Hollvinasamtök hjúkrunarheimilisins Fossahlíðar á Seyðisfirði hafa farið þess á leit við sveitarfélagið Múlaþing að fá aðstoð við að gera garð á lóð ofan við hjúkrunarheimilið þar sem íbúar Fossahlíðar gæti notið útiveru.


Göngustígar þyrftu að vera malbikaðir eða steyptir þannig íbúarnir geti farið þar um með stoðtæki. Garðurinn yrði einnig opinn öðrum bæjarbúum til að auka á samskiptin þar á milli. Í erindi hollvinasamtakanna til sveitarfélagsins er jafnframt viðruð sú hugmynd að hafa þar lítið gróðurhús og jafnvel hænsnakofa sem íbúar og starfsfólk myndu annast.

Garðurinn yrði gjöf hollvinasamtakanna í tilefni þess að í ár eru 30 ár síðan sjúkradeild, sem síðar varð Fossahlíð, tók til starfa í nýju húsnæði og í fyrra voru 120 ár frá því sjúkrahúsið á Seyðisfirði opnaði. Er þess farið á leit við Múlaþing að leggja til lóðina með jarðvegsvinnu ef þarf. Í afgreiðslu umhverfis- og framkvæmdanefndar er tekið jákvætt í hugmyndina.