Hafrannsóknastofnun þarf að geta fundið verðmætin sem synda í sjónum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. mar 2023 09:56 • Uppfært 09. mar 2023 09:56
Kári Gautason, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, segir að tryggja þurfi að Hafrannsóknastofnun geti fundið þau verðmæti sem í hafinu eru. Aukinn loðnukvóti skilar allt að tíu milljörðum í aflaverðmæti.
Þetta kom fram í máli Kára í umræðuliðnum störf þingsins nýverið. Kári ræddi þar tæplega 150.000 tonna viðbót við loðnukvóta ársins.
„Það þýðir meiri vinnu á þeim stöðum þar sem uppsjávarfiski er landað; Þórshöfn, Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Höfn og auðvitað Vestmannaeyjum. Það þýðir meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið,“ sagði Kári en slegið hefur verið á að að verðmæti viðbótarinnar geti nemið um 10 milljörðum króna.
„Það er ekkert gefið í því en ég hef fulla trú á því að það verði allt kapp lagt á nákvæmlega það sem leiðir til aukinna tekna fyrir byggðirnar, fyrirtækin, sjómennina og landverkafólkið. Ár loðnuleysis voru fyrrgreindum sjávarplássum afar dýr.“
Kári, sem einnig er aðstoðarmaður matvælaráðherra, sagði viðbótina jákvæða fyrir byggðirnar sem treysti á uppsjávarveiðarnar því samkvæmt samantekt frá 2019 hafi tekjumissir þeirra verið 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða þegar engin loðna veiddist.
Kári ítrekaði að öflugar hafrannsóknir væru forsenda skynsamlegrar nýtingar fiskistofna og auðlinda sjávarins. „Vísindaleg ráðgjöf er til grundvallar ákvörðunum um leyfilegan heildarafla og þess vegna er Hafrannsóknastofnun einfaldlega kerfislega mikilvæg stofnun í okkar efnahagslífi. Því þarf að búa þannig um hnútana að stofnunin geti sinnt sínum verkefnum, t.d. að finna 10 milljarða útflutningstekjur syndandi við Norðurland, og öðrum grunnrannsóknum með markvissum hætti.“
Slíkt væri ekki síst mikilvægt í ljósi þess að breytingar væru að verða á lífkerfi sjávar vegna loftslagsbreytinga sem nauðsynlegt væri að skilja.