Skip to main content

Harma að heilsársvegur um Öxi er kominn á ís á ný

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jan 2023 15:57Uppfært 05. jan 2023 15:59

Heimastjórn Djúpavogs harmar þær fregnir að sökum niðurskurðar muni útboð og framkvæmdir við heilsársveg yfir Öxi frestast enn lengur en þegar er orðið.

Fréttastofa Vísis greindi frá því í gær að Vegagerðin hefði sett nýjan heilsársveg yfir Öxi á ís sökum niðurskurðar ríkisins til vegamála en tíu milljarða króna vantar í málaflokkinn til að standa við öll þau loforð sem ríkið hefur gefið. Framhald málsins verður því ekki ljóst fyrr en í fyrsta lagi þegar fjármálaáætlun 2024 til 2028 liggur fyrir sem á að verða með vorinu eða snemmsumars.

Framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, Guðmundur Valur Guðmundsson, segir þó áfram unnið að undirbúningi verksins þrátt fyrir frekari tafir. Þar bæði um hönnunarvinnu sem og landakaup að ræða.

Upphaflega gaf Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, til kynna að útboð á framkvæmdinni færi fram haustið 2021 og framkvæmdir hæfust snemma á síðasta ári. Útboði var svo frestað til nýliðins árs og framkvæmdirnar áttu því að hefjast á þessu ári.

Tölvuteikning af hluta fyrirhugaðs heilsárs Axarvegar. Framkvæmdin mun tefjast um eitt ár hið minnsta. Mynd Vegagerðin