Hefur vart undan að ryðja fyrir viðbragðsaðila í Neskaupstað
Þau tvö snjóruðningartæki í Neskaupstað sem til taks eru í bænum hafa nánast eingöngu verið í því að ryðja fyrir björgunarsveitir frá því snemma í morgun. Marga daga mun taka að ryðja allar götur bæjarins.
Þetta staðfestir Einar Sveinn Sveinsson snjóruðningsmaður en hann hefur lítið gert annað frá því klukkan sex í morgun að ryðja sömu aðalgöturnar til að björgunarsveitir og viðbragðsfólk komist milli staða. Snjóðruðningar á stöku stöðum komnir í tveggja metra hæð.
„Það eru hér þrjú snjóruðingstæki alls en eitt þeirra var fyrir innan skriðuna sem féll í Nesgili og er innan hættusvæðis svo það nýtist ekki að svo stöddu til aðstoðar. Ég er nánast eingöngu í að halda vegum opnum fyrir björgunarsveitirnar og viðbragðsaðila og það er að snjóa svo ákaft að ég hef þurft að ryða þær götur aftur klukkustund eftir að ég var búinn. Sumir ruðningarnir eru að nálgast tveggja metra hæð.“
Tilfinning Einars er þó sú að veðrinu og ofankomunni sé örlítið að slota miðað við stöðuna í morgun. Hann segir þó engan vafa leika á að það taki fram á næstu helgi að ryðja allar götur bæjarins.
Mjög hefur dregið úr snjókomu á Héraði á síðustu klukkustund. Samkvæmt nýjustu upplýsingum Vegagerðarinnar á að skoða stöðuna á Fjarðarheiði fljótlega eftir hádegið og um klukkan 16 í Fagradal. Töluverð snjóflóðahætta er undir Grænafelli. Skoða á með leiðina sunnan Fáskrúðsfjarðar um þrjú-leytið og norðan Fáskrúðsfjarðar klukkustund síðar.
Norðfjarðargöng verða áfram lokuð vegna snjóflóðahættu.
Mjög tók að bæta í ofankomu í Neskaupstað snemma í morgun og enn snjóar linnulítið. Mynd: Einar Sveinn Sveinsson