Heimsóknir takmarkaðar á sjúkradeildina vegna Covid

Takmarkanir hafa verið settar á heimsóknir á sjúkradeild Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Bólusett verður víða um fjórðunginn á næstu dögum og aukin eftirspurn virðist vera eftir sýnatöku.

Fyrir helgi var tilkynnt um að heimsóknir til sjúklinga á sjúkradeildinni takmörkuðust nú við einn gest í eina klukkustund á dag en heimsóknatíminn er frá 15-19. Gestum er skylt að bera skurðstofugrímu. Reglur Umdæmissjúkrahússins eru þær sömu og á Landsspítalanum.

Engin tilmæli hafa verið gefin út fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi, til dæmis hjúkrunarheimilin en rekstraraðilar þeirra á landsvísu heyrðust í gær. Jónína G. Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir að beðið sé frekari upplýsinga og síðan farið aftur yfir stöðuna.

Aukin ásókn í sýnatöku

Jónína segist HSA ekki hafa greinargóðar upplýsingar um útbreiðslu farsóttarinnar á Austurlandi þessa stundina. Síðan takmörkunum var að mestu aflétt í lok febrúar er engin krafa um formlega sýnatöku lengur, heldur notast fólk við heimapróf. Sýnatakan er hins vegar í boði en þangað mætir fólk helst eftir að hafa fengið jákvætt úr heimaprófi, til dæmis þannig veikindin skráist í sjúkraskrá.

Hraðprófin eru í boði milli 11-11:30 þriðjudaga og föstudaga á heilsugæslunni á Egilsstöðum. Panta þarf sýnatöku fyrirfram í gegnum heilsuvera.is Tuttugu manns mættu í sýnatöku í morgun, samanborið innan við tíu síðustu tvær vikur, sem kann að vera merki um aukna útbreiðslu. Jónína segir að metið verði í dag hvort þörf sé á að auka framboð sýnatökunnar á ný. Hún bætir við að um eða 90% þeirra sem smitist þessa dagana séu að fá veiruna í fyrsta sinn.

HSA hefur ekki hvatt fólk til að mæta í formlegt próf heldur halda sig til hlés þegar heimapróf reynast jákvæð. Miðað er við fimm daga. Jónína ítrekar sérstaklega að fólk með einkenni haldi sig frá viðkæmum hópum, til dæmis fari alls ekki í heimsóknir á hjúkrunarheimili né sjúkrahús verði það vart við minnstu einkenni.

Viðkvæmustu hóparnir komnir með fjórða skammtinn

Á sama tíma hefur bólusetningum verið haldið áfram. Áætlað er að bólusetja á Reyðarfirði og Norðfirði á morgun og Fáskrúðsfirði á fimmtudag. Í næstu viku stendur til að bólusetja á Breiðdalsvík á þriðjudag, Egilsstöðum á miðvikudag og Djúpavogi á fimmtudag. Verið er að undirbúa bólusetningu í fleiri þéttbýliskjörum eystra, en bólusett er á heilsugæslustöðvum.

Á starfssvæði HSA hefur öllum íbúum hjúkrunarheimila, fólki sem notar ónæmisbælandi lyf eða er komið yfir áttrætt verið boðin fjórði skammtur bóluefnis. Að sögn Jónínu hefur verið vel mætt í þær bólusetningar.

Fólki undir 80 ára aldri býðst að mæta í fjórða skammtinn. Hann má gefa þegar 5-6 mánuðir eru liðnir frá síðasta atviki, annað hvort þriðju bólusetningu eða smiti en nánari upplýsingar um tímasetningar milli bólusetninga eru á vef Landlæknis.

Allir sem vilja fá bólusetningu

Þess utan segir Jónína einkum horft til þriggja hópa í bólusetningu. Í fyrsta lagi séu nokkuð margir einstaklingar sem ekki hafi fengið þriðju sprautuna. Mælt er með bólusetningu þótt fólk hafi veikst af veirunni. Annar hópur eru börn 16 ára og eldri sem mega fá þriðju sprautu. Að lokum hefur verið horft til barna 5-11 ára. Áður en börn á þeim aldri eru bólusett þurfa foreldrar að skrifa undir samþykki, sem hægt er að gera rafrænt. Aðeins þegar það liggur fyrir er barnið boðað í bólusetningu.

Panta þarf bólusetningu fyrirfram með að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Haldið er utan um þá sem óska eftir bólusetningu og hafa samband við fólk þegar hægt er að bólusetja það.

„Allir sem óska eftir bólusetningu fá hana. Ný bólusetning örvar mótefnasvörunina sem minnkar líkurnar á að fólk verði alvarlega veikt en kemur ekki í veg fyrir sýkingu.“
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.