Heitir styrkingum starfsstöðva á landsbyggðinni með sameiningu stofnana

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, heitir eflingu starfsstöðva og fjölgun starfa á landsbyggðinni með umfangsmikilli sameiningu stofnana sem heyra undir hans ráðuneyti. Mikil skörun hafi verið milli stofnana síðustu ár sem með þessu eigi að vera betur í stakk búnar fyrir þau verkefni sem þeim eru falin.

Guðlaugur Þór tilkynnti nýverið um áform um að sameina tíu stofnanir undir ráðuneytinu í þrjár. Orkustofnun og önnur svið Umhverfisstofnunar en náttúruverndarsvið mynda nýja Loftlagsstofnun. Það svið sameinast Vatnajökulsþjóðgarði, Þjóðgarðinum á Þingvöllum og Minjastofnun í Náttúruverndar – og minjastofnun. Að endingu mynda Landmælingar, Veðurstofan, Náttúrufræðistofnun, Íslenskar orkurannsóknir og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn Náttúruvísindastofnun.

Ekki hefur verið gefin út nákvæm tímaáætlun um ferlið en breyta þarf lögum til að sameiningarnar gangi í gegn. Hjá stofnunum eru um 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land.

Verkefnin eru á landsbyggðinni


Af þessum stofnunum er Vatnajökulsþjóðgarður hvað fyrirferðamestur á Austurlandi en þar eru einnig starfsstöðvar frá Minjastofnun og Umhverfisstofnun. „Það sem mun sjást hér, eins og annars staðar, er styrking á starfsstöðvum út um landið,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við Austurfrétt spurður út í hvernig sameiningin myndi birtast Austfirðingum en hann var á ferðinni um svæðið nýverið.

„Það er enginn vafi í mínum huga og ég hef sannfærst um það enn frekar að ef við ætlum að ná árangri í þeim málaflokkum sem heyra undir mitt ráðuneyti þá verðum við að vinna mjög þétt með nærsamfélaginu. Það gerum við ekki betur en með því að fólkið, sem starfar við stofnunina, sé hluti af nærsamfélaginu.

Það á sannarlega við um þjóðgarða. Þar sem þeir hafa gengið best er samfélagið virkur þátttakandi og í forustu um það svæði. Ég hóf þessa vegferð þegar ég flutti Vatnajökulsþjóðgarð heim á Höfn. Höfuðstöðvar hans voru einhverra hluta vegna í Garðabæ, sem þrátt fyrir að vera góður staður er ekki við Vatnajökul,“ sagði Guðlaugur.

Ekki virðist sem breytingar verði á starfsfólki stofnanna við breytingarnar. Þá liggur ekkert fyrir um höfuðstöðvar nýju stofnananna. „Það er aðeins ákveðið að við munum styrkja starfsstöðvar um landið. Við færum ekki fólk frá núverandi starfsstöðvum en þegar stöður losna þá verður almenna reglan að þær verða fluttar á starfsstöðvar út um landið. Flest verkefnin sem snúa að þessum stofnunum eru úti á landi. Það eru mörg rök sem hníga að því að styrkja þessar stofnanir, meðal annars að staðarþekking verður ekki metin til fjár.“

Hefðum ekki búið til þessar stofnanir í dag


Ljóst er að mikil skörun hefur verið mikil stofnana, til dæmis þar sem Umhverfisstofnun hefur verið með friðlýst svæði og þjóðgarðinn á Snæfellsnesi en aðrir þjóðgarðar sér. „Ef við værum að búa þessar stofnanir til frá grunni þá gerðum við það ekki eins og þær hafa verið heldur eins og þær verða. Við erum að fara að nýta mannauðinn og þekkinguna betur.

Þarna hefur til dæmis verið skörun á milli stofnana í vöktun og rannsóknum. Í þjóðgarðsvörslu hefur hefur starfsfólk starfað hlið við hlið hjá sitt hvorri stofnuninni. Við hljótum líka að skoða vöktun menningarminja og náttúruminja í samhengi.“

Guðlaugur Þór segir að fyrstu viðbrögð við tíðindunum séu jákvæð. Helst hefur heyrst gagnrýni frá Minjastofnun þar sem óttast er að húsavernd verði undir í nýrri stofnun. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins gerði Maskína könnun í fyrra þar sem í ljós kom að meirihluti starfsfólks núverandi stofnana teldi tækifæri í sameiningum.

„Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð, enda kemur þetta engum á óvart sem starfar innan þessarar stofnunar því ferlið hefur staðið síðan í júní í fyrra. Það verða samt alltaf skiptar skoðanir um svona hluti og ég geri ekki athugasemdir við það. Málið er að ráðuneyti og stofnanir séu eins vel undirbúin og hægt er fyrir þessi stóru verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Við byrjuðum á að breyta skipulagi ráðuneytisins og nú eru það stofnanirnar.“

Býst við fleiri þjóðgörðum


Í máli Guðlaugs Þórs kom fram að hann reiknaði með að þjóðgörðum hérlendis myndi fjölga á næstu árum og þar yrði eftir hugmyndafræðinni um að starfsfólkið yrði staðsett í námunda við garðana. Í skýrslu um þjóðgarða og friðlýst svæði, sem kom út í nóvember, eru meðal annars rætt um hugmyndir um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum, stækkunar Þingvallagarðsins, og nýja þjóðgarða á Torfajökulssvæðinu, um Heklu, Friðland að Fjallabaki og aukna vernd Jökulsárgljúfra.

„Á Vestfjörðum hefur verið að störfum sérhópur um bæði þjóðgarðs – og grænorkumál. Við höfum heyrt af áhuga sveitarstjórnarfólks annars staðar. Þær hugmyndir eru í gerjun en hafa ekki formgerst. Skýrslan veitti góðar upplýsingar og stöðumat. Umræðan um þjóðgarða er í fullum gangi og ég held hún sé að þróast í rétta átt. Ég held að fólk sé meira sammála en ósammála. Það hefur verið ákveðin tortryggni sem vinna þarf á með opnu og hreinskiptu samtali.“

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.