Helgin: Jólatónleikar með Valdimar og hljómsveit
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. des 2022 13:48 • Uppfært 09. des 2022 13:51
Stórsöngvarinn Valdimar kemur austur um helgina ásamt hljómsveitinni LÓN og heldur tónleika með jólalögum. Listsýningar og spilamót eru meðal annars sem er framundan um helgina á Austurlandi.
LÓN og Valdimar hafa að undanförnu unnið að jólatónlist í samvinnu við söngkonuna Rakel, sem er sérstakur gestur á tónleikunum í Eskifjarðarkirkju annað kvöld. Um er að ræða nýjar og oft óvæntar útgáfur af þekktum jólalögum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 annað kvöld.
Á sunnudag lýkur pólskri kvikmyndahátíð sem haldin er í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði. Klukkan 14:00 verður sýnd fjölskyldumyndin Detective Bruno og klukkan 17:00 gamanmyndin Zupa Nic. Báðar eru með enskum textum. Eftir seinni myndina verða tónleikar með Stefni Ægi Stefánssyni.
Lokasýningar þessarar annar LungA-skólans á Seyðisfirði verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í dag klukkan 17:00. Sýningin ber yfirskriftina „Ég braust inn í fataskáp engla“ og hafa nemendur á LIST braut skólans unnið að henni síðustu tvær vikur ásamt Unu Björgu Magnúsdóttur og Joey Keys. Í húsinu opnaði ný sýning nema við Listaháskóla Íslands í Ormsstofu, nýju sýningarrými, um baráttuna við loftslagsbreytingar.
Í fyrramálið stendur fimleikadeild Hattar fyrri árlegri jólasýningu sinni. Tvær sýningar verða, sú fyrri klukkan 11:00 en sú seinni 13:00. Að þessu sinni er sótt í heim teiknimyndanna um dýrin frá Madagaskar.
Á Tehúsinu verður jólakaríókí annað kvöld en á Aski Taproom Austurlandsmótið í spilinu Partners. Þar er hægt að koma með eða án spilafélaga til að taka þátt – eða einfaldlega fylgjast með.
Þá býður Skaftfell upp á smiðju í vídeó gjörningalist og innsetningu í Herðubreið á Seyðisfirði frá klukkan 11 í fyrramálið. Leiðbeinendur eru Bobbi Salvör Menuez og Quori Theodor. Sameinast þar gagnvirkur skúlptúr, tilraunamatseld og myndbandsgerð. Deginum lýkur svo á afrakstri dagsins, bæði í mat og á myndbandi.
Við þetta má bæta jólamarkaði Jólamattarins í gróðurhúsunum á Valgerðarstöðum við Fellabæ frá 11-16 og upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri klukkan 13:30 á morgun.