Helgin: Tvær umferðir af torfæru
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2022 17:24 • Uppfært 03. jún 2022 17:45
Tvær umferðir Íslandsmeistaramótsins í torfæruakstri verða eknar í Mýnesgrús utan við Egilsstaði um helgina. Sumarsýning Skaftfells opnar á morgun.
Fjórða og fimmta umferð Íslandsmótsins í torfæru verða eknar í Mýnesgrús um helgina. Keppni hefst klukkan 11:00 báða dagana. Í kvöld klukkan 20:00 verður þar önnur umferð keppnisraðarinnar í RC torfæru en þar er um að ræða minni bíla.
Inga Huld Hákonardóttir, danshöfundur og Yann Leguay, hljóðlistamaður, sameina krafta sína í verkinu Again the Sunset sem sýnd verður í Herðubreið á Seyðisfirði á sunnudag og í Tanknum á Djúpavogi á mánudagskvöld. Um er að ræða verk sem dansar á mörkum þess að vera tónleikar og gjörningur og kemur austur á vegum Listahátíðar í Reykjavík.
Sumarsýning Skaftfells á Seyðisfirði opnar á morgun. Hún ber nafnið Fjær og er með verkum eftir Diane Borsato, Geoffrey Hendricks og Þorgerði Ólafsdóttur. Á sýningunni Á sýningunni Fjær er safnað saman samtímalist og munum úr náttúru- og minjasöfnum sem tengjast innbyrðis og hafa skírskotanir í himininn, jarðfræði, könnun á landi og sýnatökur.
Á sýningunni eru einnig steinar sem Nicoline Weywadt, fyrsti íslenski kvenljósmyndarinn, safnaði en hún bjó á Teigarhorni í Berufirði. Þar verða einnig plastmunir, fundnir í jörðu í fornleifauppgreftinum við bæinn Fjörð á Seyðisfirði, sumrin 2020 og 2021. Þorgerður og Becky Forsythe sýningarstjóri verða með leiðsögn um sýninguna klukkan 11:00 á sunnudag.
Fyrsti knattspyrnuleikur helgarinnar verður á Norðfirði í kvöld þar sem BN tekur á móti Samherjum í E riðli fjórðu deildar. Á morgun heimsækir Einherji Mána á Höfn og Spyrnir fer norður til að spila gegn Hömrunum.
Í Lengjudeild kvenna tekur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á móti Fylki klukkan 13:00 á morgun í Fjarðabyggðarhöllinni. Strax á eftir fer þar fram leikur KFA og Njarðvíkur í annarri deild karla. Höttur/Huginn fer suður í Sandgerði og spilar gegn Reyni.