Helst áhyggjur af vatnsbólum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. feb 2023 17:06 • Uppfært 14. feb 2023 17:07
Hjá HEF veitum eru helst áhyggjur af opnum vatnsbólum ef til öskugoss kemur frá Öskju. Almannavarnir á Austurlandi fylgjast með þróun mála við eldsstöðina.
Í morgun var greint frá því að um helgina hefðu myndast vakir á Öskjuvatni sem bendir til hita undir og mögulegs kvikuinnskots. Þá hefur verið fylgst með eldstöðinni undanfarna mánuði því land hefur risið þar.
Hjá almannavörnum á Austurlandi fengust í dag þær upplýsingar að náið sé fylgst með gangi mála hjá Öskju. Reglulegt samráð er við lögregluna á Norðurlandi eystra, Veðurstofuna og aðra hagsmunaðila, svo sem björgunarsveitir. Í næstu viku er áætlaður upplýsingafundir með lögreglu og Veðurstofu sem almannavarnir halda utan um.
HEF veitur eru meðal þessara hagsmuna og út úr fundargerðum stjórnar félagsins aftur í tímann má lesa að þar hefur verið fylgst með þróuninni.
Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri, segir helstu áhyggjurnar af gosi í Öskju, eða í Vatnajökli, snúi að öskugalli sem ógnað geti opnum vatnsbólum eins og á Djúpavogi og Seyðisfirði.
HEF veitur hafa sambandi við vísindafólk hjá bæði Veðurstofunni og Háskóla Íslands til að meta mengunarhættu af mögulegu öskufalli. Hún er almennt metin lítil en vatnsból og vatn þurfa samt mikla og trygga vöktun ef eldgos brýst út.
Erfitt sé að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir, aðrar en þær að sækja vatn undir yfirborð sem sé meiriháttar verkefni sem sé bæði dýrt og útheimti mikinn undirbúning, fyrir utan að óvíst sé um magn vatns í jörðu á þessum slóðum vegna þéttni berglaga.