Skip to main content

Hinkra með grænt ljós á frístundabyggð að Eiðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2023 14:42Uppfært 07. mar 2023 14:45

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur ákveðið að hinkra með að taka ákvörðun um breytingar á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðs frístundasvæðis að Eiðum.

Þetta var ákveðið á fundi ráðsins í vikunni en nokkur fjöldi athugasemda barst vegna þeirra hugmynda eigenda Eiðajarðarinnar að skipuleggja allt að 160 frístundalóðir á jörðinni. Þar á meðal allt í kringum Eiðavatn.

Austurfrétt greindi frá málinu fyrir um mánuði síðan en nýir eigendur Eiða sjá fyrir sér mikla uppbyggingu frístundalóða bæði til eignar og sölu en á svæðinu hafa lengi verið um 20 bústaðir í eigu ýmissa stéttarfélaga.

Svæðið sem um ræðir kringum Eiðavatnið og niður að Lagarfljóti þykir mikil og sérstök náttúruperla og talið dýrmætt vistkerfi plantna og fugla. Eiðavatnið sjálft og nokkuð af umhverfinu hefur þó þegar tekið nokkrum breytingum af mannavöldum gegnum tíðina. Vatnið var til dæmis hækkað um nokkra metra á sínum tíma til að tryggja vatnsöflun til raforkuframleiðslu og þá vatni veitt um djúpa skurði úr nærliggjandi ám og lækjum.

Samþykkti ráðið samhljóða að taka sér tíma til að rýna nánar í framkomnar athugasemdir og jafnframt óska frekari upplýsinga frá eigendum Eiða.