Skip to main content

Hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar búa í Fljótsdalnum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2023 13:24Uppfært 31. jan 2023 13:52

Átján komma fjögur prósent allra íbúa Fljótsdalshrepps eru erlendir ríkisborgarar samkvæmt úttekt sem Byggðastofnun hefur gert og birt þar sem hlutfall erlendra einstaklinga af íbúafjöldanum í hverju sveitarfélagi landsins kemur fram.

Eins og flestum er kunnugt hefur mjög fjölgað í hópi erlendra ríkisborgara á Íslandi á tiltölulega skömmum tíma. Árið 1998 voru erlendir ríkisborgarar tvö prósent af íbúafjölda landsins en í lok árs 2021 töldust þeir alls 15 prósent af heildar íbúafjöldanum. Nokkur fjölgun í viðbót hefur orðið síðan það var því tekið var á móti um þrjú þúsund einstaklingum á síðasta ári sem flóttafólki auk annarra sem hingað komu til starfa.

Fimmtán prósenta meðalhlutfallið reynist nokkru hærra í tveimur af fjórum sveitarfélögum hér austanlands. Af 103 íbúum Fljótsdalshrepps voru 19 þeirra erlendir ríkisborgarar. Hlutfallið litlu lægra í Fjarðabyggð þar sem íbúafjöldi er töluvert meiri. Þar reyndust 18,2 prósent allra íbúa erlendir einstaklingar eða 950 af 5.206 íbúum alls.

Fjöldi erlendra ríkisborgara nokkru lægri í Múlaþingi eða 12,7 prósent og fæstir í Vopnafjarðarhreppi þar sem aðeins 8,9 prósent íbúa halda í sitt erlenda ríkisfang.

Samanlagt voru erlendir ríkisborgarar 1.672 talsins í lok árs 2021 á Austurlandi af alls 11.031 skráðum íbúum á þeim tíma. Það er mjög á pari við hlutfallið á landsvísu því það merkir að 15,2 prósent íbúa Austurlands voru á þeim tíma erlendir ríkisborgarar.

Þess má geta að þessi fjöldi erlendra íbúa í sveitarfélögum Austurlands er þó lítið miðað við hlutfallið víða annars staðar. Til að mynda var fjöldi erlendra ríkisborgara sem búsettir voru í Mýrdalshreppi fleiri en íslenskir ríkisborgarar á þessum umrædda tímapunkti. Þeir erlendu voru 419 talsins (52%) meðan íslenskir þegar töldust 395 (48%.) Eftir því sem Austurfrétt kemst næst mun það vera í fyrsta sinn sem erlendir einstaklingar eru meirihluti fólks í nokkru íslensku sveitarfélagi.