Skip to main content

Hönnunarvinna fyrir Fjarðarborg gengið brösuglega

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. feb 2023 11:57Uppfært 16. feb 2023 13:51

Allmikið hefur gengið á við hönnunarvinnu fyrir félagsheimilið Fjarðarborg á Borgarfirði eystra og einar tvær verkfræðistofur sagt sig frá þeirri vinnu síðustu misserin.

Austurfrétt greindi frá því fyrr í vikunni að óánægju gætti hjá einum aðila af þremur í heimastjórn Borgarfjarðar með framgang og tillögur þær sem nú liggja fyrir eins og lesa má um hér.

Formaður heimastjórnarinnar, Eyþór Stefánsson, kom inn á þann ágreininginn á fundi sveitarstjórnar í vikunni þar sem hann sagðist sjálfur „pínu meyr“ yfir að loks liggi fyrir teikningar að breytingum á félagsheimilinu eftir langa bið eftir slíku.

Fór hann svo stuttlega yfir feril málsins sem varpar ljósi á hvers vegna Ólafur Arnar Hallgrímsson, heimastjórnarmaður, lýsti ákveðinni óánægju með starfsfólk Múlaþings í málinu. Haustið 2021 aðstoðaði verkfræðistofan Verkráð við að vinna frumkostnaðaráætlun en gaf svo verkið frá sér.

„Mig minnir að það hafi verið í apríl síðastliðnum sem heimastjórn taldi sig hafa gert allt sem hún ætlaði sér að gera í málinu. Heimastjórnin vildi þó fá að sjá kostnaðaráætlun og áfangaskiptingu verkefnisins áður en hún veifaði þessu frá sér nema þá sagði verkfræðistofan Verkráð sig frá málinu vegna anna. Þá var samið við Verkís og það sem gerist þá eru að það koma fram tillögur sem eru allt annars eðlis en fyrri tillögur sem heimastjórnin hafði lýst hrifningu með. Í kjölfarið komu ráðleggingar frá umhverfis- og framkvæmdasviði [Múlaþings] um að þetta væri betri leið að fara og þess vegna ættum við að skoða þessa leið. Við bókuðum á þá leið að taka vel í þessar breytingartillögur að því gefnu að þær stæðust aðgengismál og því vísað til aðgengisfulltrúa. Sá fulltrúi gaf þessari útfærslu algjöra falleinkunn en það varð til þess að skoðanaágreiningur kom upp í heimastjórn um næstu skref og óskað var eftir nánari útfærslum á báðum tillögunum.“

Varð að samkomulagi á stórum fundi á Borgarfirði að fá ítarlegri útfærslur áður en lengra væri haldið en þá verða þeir atburðir að verkfræðistofan Verkís segir sig líka frá verkinu og frekari útfærslur því unnar á skrifstofu umhverfis- og framkvæmdasviði Múlaþings.

„En nú virðist mér vera búið að gerast sem kallað hefur verið eftir lengi að sviðið taki ákvörðun um það sem þeir eiga að taka ákvarðanir um. Þeir betur til þess hæfir en við og nú búið að kynna fyrir okkur ákveðna útfærslu sem að mínum dómi hefur tekið miklum og góðum breytingum og lítur bara mjög vel út. Það sem ég sé þá fyrir mér í þessu máli er að á næsta heimastjórnarfundi þá komi einhverjar lokaáætlanir um þetta.“

Eyþór kom inn á að vissulega hefði heimastjórnin tekið yfir hlutverk þess sem áður var húsnefnd Fjarðarborgar og hefði því skyldum að gegna þegar kæmi að breytingum á húsinu en furðaði sig á hversu mikið heimastjórn væri með puttana í verkum sem ættu líklega heima annars staðar.

„Þannig að ég tel að næstu skref í málinu að koma þessu í sama farveg og aðrar framkvæmdir í sveitarfélaginu þar sem heimastjórn þarf ekki að vera leiðandi í verkefnum heldur sé einhvers konar ráðgjafi. Ég mæli alls ekki með því að í svona funheitum málum sé farið gegn heimastjórninni enda tel ég enga hættu á því í þessu máli.“

Félagsheimilið Fjarðarborg er hjarta Borgarfjarðar en húsið barn síns tíma og uppfyllir ekki nútímakröfur. Deilt er um hversu viðamiklar framkvæmdir skal gera á húsinu þegar að því kemur. Mynd Austurland.is