Hótel Breiðdalsvík verðlaunað fyrir sjálfbærnistefnu sína

Hótel Breiðdalsvík fékk í gær hvatningarverðlaun verkefnisins Ábyrgar ferðaþjónustu fyrir metnaðarfulla sjálfbærnistefnu sem byggir á hringrásarhagkerfinu og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Það var Friðrik Árnason, eigandi hótelsins, sem tók við verðlaununum sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti. Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar standa að verðlaununum.

Í umsögn dómnefndar segir að Hótel Breiðdalsvík hafi tekið á skipulagðan og markvissan hátt á stóru og mikilvægu verkefni undanfarið ár. Sjálfbærnistefna þess sé afar vel ígrunduð, markvisst unnið með Heimsmarkmiðin og hringrásarhagkerfið haft að leiðarljósi. „Hér birtist hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu á mannamáli sem er allt í senn auðlesin, fróðleg og innihaldsrík.“

Við gerð stefnunnar hafi verið horft til gilda hótelsins: „metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið.“ Dómnefndin telur þau endurspeglast vel á hvernig stefnunni sé framfylgt í daglegum rekstri. Þá sé lögð áhersla á að hótelið sé einangrað heldur virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélaginu á Breiðdalsvík.

Í sjálfbærnistefnunni, sem lesa má á vef hótelsins, er komið inn á þætti á borð við þjálfun nýs starfsfólks, öryggismál, hvernig sorpflokkun dregur úr sóun og skilar sér í hagkvæmari rekstri, að hugað sé að skynsömum innkaupum og nefndar aðgerðir til að draga úr orku- og vatnsnotkun.

Af fimmtán tilnefningum sem bárust til verðlaunanna voru þrjú fyrirtæki valin til að kynna sérstaklega vinnu sína á sérstökum degi verkefnisins í gær. Auk Hótels Breiðdalsvíkur voru það Pink Iceland og Midgard Adventure.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.