Hugmyndin að fólk sofi betur en ekki endilega út
„Það er nú kannski ekki hugmyndin að fólk sofi út alla daga en ef hægt er að leiðbeina fólki með að sofa lengur og vonandi betur þá er mikið unnið,“ segir Sigurður Ólafsson, verkefnisstjóri mannauðs hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað (SVN.)
Fyrirtækið hefur í tölverðan tíma haldið úti fjölda námskeiða fyrir starfsfólk sitt í því skyni að efla heilsu og anda og jafnvel boðið upp á niðurgreidd úrræði í kjölfarið fyrir þá sem þess óska. Framundan er enn eitt slíkt námskeið þar sem svefnsérfræðingurinn Dr. Erla Björnsdóttir hyggst fræða og aðstoða þá sem glíma við einhvers konar svefnvanda en Erla er sjálf frá Norðfirði.
Sigurður segir mikið unnið ef heilsa starfsfólks sé eins góð og mögulegt er hverju sinni.
„Við erum með fyrirtæki sem framkvæmir fyrir okkur heilsuskoðanir meðal starfsfólks undir heitinu sjómannaheilsa og hefur gert um hríð. Við fórum að taka eftir því þegar niðurstöður fóru að berast að heilsufarið var kannski ekki upp á það allra besta hjá fólkinu okkar. Það gaf okkur svona tilefni til að fara að tala meira saman um heilsuna og það upphafið af því að gera skurk í þessu.“
Rannsóknir vísindamanna síðustu ári og áratugi sýna alltaf betur og betur fram á gríðarlegt mikilvægi góðs svefns enda hefur slík hvíld eða skortur þar á greinileg og skjót áhrif á alla líkamsstarfsemi. Vitað er gegnum rannsóknir að þriðjungur Íslendinga sefur skemur en sex klukkustundir á nóttu þegar talið er að sjö til átta klukkustundir séu lágmarks næturhvíld fyrir líkamann.
Sigurður segir að í tilviki sjávarútvegsfyrirtækja á borð við Síldarvinnsluna þá komi gjarnan uppgangstímar í vinnslu uppsjávarfisks og þá þurfi að vinna vaktir og hjá SVN þýði það tólf stunda vinnudag meðan það stendur yfir fyrir fiskvinnslufólkið.
„Það auðvitað ekki nema stöku sinnum en engu að síður eru það vaktir sem margir geta átt erfitt með og þá sérstaklega að hvílast á milli vakta. Slík vaktavinna leggst misvel í fólk og það skal viðurkennast að tólf stunda vakt er í lengri kantinum. Hjá okkur er mikil af þaulvönu fólki sem kippir sér ekkert upp við slíkt en nýtt fólk getur lent í vandræðum. Þess vegna gæti starfsfólkið notið góðs af svefnverkefni því sem framundan er.“
Frá fiskvinnslu SVN á Seyðisfirði. Vinnsla fiskafurða kallar á köflum á langar vaktir og stundum dögum eða vikum saman sem er ekki ákjósanlegt fyrir svefnheilsu fólks. Mynd Síldavinnslan/Ómar Bogason