Hvetja til þess að nýtt íþróttahús rísi við sundlaugina á Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. des 2022 00:00 • Uppfært 16. des 2022 07:55
Hópur áhugafólks um framtíð íþróttamála á Eskifirði hvetur til þess að hafist verði handa við undirbúning að byggingu nýs íþróttahúss í bænum sem staðsett verði við hlið sundlaugarinnar. Hópurinn býður fram aðstoð sína við vinnuna.
Þetta kemur fram í erindi hópsins sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í byrjun vikunnar. Þar er rakið að viðhaldi hússins, sem orðið er meira en 50 ára gamalt, hafi lítt verið sinnt síðustu 20 ár sem skapi mikil vandræði.
Að auki sé flötur hússins ekki í löglegri stærð fyrir nokkra íþróttagrein og þar af leiðandi ekki hægt að halda í því nein íþróttamót. Þetta leiði allt til þess að aðstæður barna á Eskifirði séu til „háborinnar skammar“ fyrir sveitarfélagið og því kominn tími á aðgerðir.
Hópurinn telur rétt að byggja nýtt íþróttahús þar sem hægt væri að halda mót auk þess að gefa börnum og fullorðnum tækifæri til að stunda íþróttir við hæfi um leið og bætt yrði úr líkamsræktarstöðu bæjarins eða annars íþróttastarfs.
Bent er á að í samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar sé gert ráð fyrir meginíþróttasvæði Fjarðabyggðar við sundlaugina á Eskifirði. Hópurinn telur tækifæri falin í að byggja húsið þar því með því sé hægt að nota affall frá sundlauginni til upphitunar og þar með lækka hitunarkostnað.
Bent er á ávinning af íþróttum: efnahagslegan, ímyndarlegan en ekki síst jákvæðari heilsuáhrif en Fjarðabyggð er í hópi heilsueflandi sveitarfélaga.
Í niðurlagi bréfsins segist hópurinn bjóða fram sitt besta fólk í starfshóp um mótun skýrrar stefnu um málefni íþróttahúss á Eskifjarðar og staðarins sem meginíþróttasvæðis Fjarðabyggðar. Máli skipti að íbúar fái aðkomu að málinu, ekki aðeins íþróttafélög.
Mikill þrýstingur hefur verið á aðgerðir vegna íþróttahúss á Eskifirði, ekki síst þar sem illa hefur gengið að ráða við leka sem vart hefur orðið í því síðustu misseri. Í ályktun frá aðalfundi Íbúasamtaka Eskifjarðar í síðustu viku er lýst fullum stuðningi við bæjarbúa sem héldu fund í íþróttahúsinu í síðasta mánuði og kröfðust þar aðgerða vegna hússins.
Erindi áhugahópsins var á fundi bæjarráðs vísað til frekari vinnslu við stefnumörkun í íþróttamálum í Fjarðabyggð sem er að fara af stað.