Í Múlaþingi vill fólk helst búa í eigin einbýlishúsi
Meirihluti íbúa í Múlaþingi vill helst búa í sínu eigin húsnæði og þá helst einbýlishúsi samkvæmt húsnæðiskönnun sem gerð var fyrir sveitarfélagið nýverið.
Könnun þessi var gerð í tengslum við endurskoðun húsnæðisáætlunar Múlaþings og var lögð rafrænt fyrir íbúa í nóvember og desember síðastliðnum. Engum vafa er undirorpið að flestir vilja eiga sitt einbýlishús samkvæmt henni og reyndist það raunin hjá svarendum í öllum kjörnum sveitarfélagsins. Fáir vilja vera á leigumarkaði.
Óskastærð húsnæðis flestra var þriggja til fjögurra herbergja einbýli en tiltölulega fáir höfðu áhuga á að byggja sjálfir. Fremur sá fólk fyrir sér að kaupa tilbúið húsnæði væri slíkt í boði en þó sögðust flestir sem áhuga höfðu á húsnæðiskaupum ekki tekið neina ákvörðun um kaup að svo stöddu. Sem lesendum er kunnugt hefur ekki verið að byggt jafn mikið íbúðarhúsnæði í Múlaþingi um árabil og nú er raunin.
Á Borgarfirði vildi meirihlutinn eiga sitt eigið og þá helst einbýli en parhús og blokkaríbúðir voru einnig nefndar. Sama var uppi á teningnum á Djúpavogi en þar svöruðu ein 70% því til að hafa áhuga að skoða kaup en hlutfallið um helmingur annars staðar. Nokkuð var um að íbúar á Egilsstöðum hefðu hug á að eiga íbúð í fjölbýli fyrir 55 ára og eldri meðan fólk á Seyðisfirði bjó þegar í einbýli og vildi hafa það svo áfram.