Skip to main content

Íbúar vilja leggja meira í sorplausnir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2023 14:49Uppfært 07. feb 2023 14:50

Nýleg könnun sýnir að 80% íbúa á Austurlandi telja sveitarfélögin á svæðinu eiga að auka fjármuni í innviði eða lausnir til móttöku á úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingu. Mengunarbótareglan, sem innleidd var í lög um síðustu áramót, hefur áhrif á hvernig sorpmeðhöndlun er hugsuð.


Þetta kemur fram í grein Páls Baldurssonar, verkefnastjóra hjá Austurbrú, í nýjasta tölublaði Austurgluggans sem helgað er framtíðinni á Austurlandi. Páll tekur þar fyrir hringrásarhagkerfið og vitnar til netkönnunar sem gerð var skömmu fyrir áramót.

Hann segir að þótt sveitarfélögin séu í lykilhlutverki megi ekki gleyma því að sveitarfélag sé ekki annað en umgjörð um nærsamfélagið. Um síðustu áramót var innleidd mengunarbótaregla, að sá sem mengi þurfi að borga fyrir það. Þannig geti einstaklingar og fyrirtæki á næstu árum búist við að þurfa að greiða fyrir úrgang sinn á næstu misserum.

Samfara þessu eykst líka hugsun um endurnýtingu, eða hringrásarhagkerfinu. Það á sér stað í Svæðisskipulagi Austurlands sem staðfest var í fyrra. „Ein af þeim spurningum sem við stöndum frammi fyrir núna er hvernig viljum við horfa á meðhöndlun úrgangs til lengri eða styttri tíma? Er þetta bara vesen og einhverjar kröfur sem koma að ofan eða utan úr heimi, sem við varla nennum að setja okkur inn í eða hvað þá sinna. Gerum bara það allra nauðsynlegasta og kannski varla það.

Eða eru þetta kannski tækifæri. Tækifæri fyrir Austurland til þess að ganga lengra og taka frumkvæðið. Vera á undan. Hætta að horfa á úrgang sem efni eða vandamál sem við þurfum að losna við. Heldur frekar horfa á úrgang sem auðlind eða hráefni sem við bæði getum og ættum að nýta betur. Ýta undir nýsköpun,“ skrifar Páll.

Lögfesta þarf forgang í orkuskiptum

Hringrásarhagkerfið er fleirum greinarhöfundum síðasta blaðs hugleikið, meðal annars Sveini Margeirssyni, framkvæmdastjóra nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brimi. Í sinni grein rekur hann hvernig lögð hafi verið áhersla á aukna verðmætasköpun en líka aðgerðir á borð við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar á Vopnafirði sem nýtir stærstan þeirra 50 gígawattstunda sem Brim kaupir á hverju ári.

En Sveinn bendir líka að til að fyrirtæki taki skrefið í rafvæðingu þá þurfi þau að geta treyst á að fá hana til starfseminnar. „Austurland er þungamiðja íslensks uppsjávariðnaðar, en kolefnisspor uppsjávarveiða á hvert tonn afla, er mjög lágt í samanburði við aðra matvælaframleiðslu. Þá býr Austurland að öflugum mannauði, miklu magni annarra hráefna og mikilli orku,“ skrifar hann.

„Þess vegna getur Austurland gegnt lykilhlutverki í því að ná fram skuldbindingum Íslands samkvæmt Parísarsáttmálanum. Til þess að svo megi verða, þarf að lögfesta með skýrum hætti að orkuskipti heimila og hefðbundinna fyrirtækja verði í forgangi varðandi aðgengi að raforku á komandi árum, í stað þess að binda raforku í uppbyggingu gagnavera. Þegar það liggur fyrir er raunhæft að fyrirtæki ráðist í innviðauppbyggingu sem er forsenda orkuskipta.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku. Hægt er að panta áskrift hér.