Skip to main content

Íhuga borgarferðir frá Egilsstöðum af mikilli alvöru

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2023 10:08Uppfært 07. mar 2023 10:10

Hugsanlega verða fleiri flugferðir í boði frá Egilsstöðum beint til Evrópu þetta árið en aðeins með þýska flugfélaginu Condor. Hjá Niceair skoða menn þann möguleika í kjölinn þessa dagana.

Það staðfestir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair á Akureyri, en Austurfrétt hitti forstjórann fyrir strax í kjölfar fundar með ferðamálayfirvöldum á Akureyri þar sem fjölgun áfangastaða næstu misserin, þar með talið frá Egilsstöðum, var meðal annars til umræðu.

„Það er sannarlega einn sá möguleiki sem við erum að skoða að bjóða upp á borgarferðir beint frá Egilsstöðum. Við erum að skoða það af alvöru að bjóða ferðir beint að austan í haust og jafnvel næsta vetur og vorum að leggjast yfir hvað gæti verið vit í þeim efnum. Eitt af því sem við höfum áhuga á að gera eru svokallaðar W-ferðir. Slíkar ferðir þýða til dæmis að flogið er beint héðan frá Akureyri til Kaupmannahafnar, frá Kaupmannahöfn er flogið til Egilsstaða og til baka út og svo aftur beint þaðan til Akureyrar. Þannig getum við bæði þjónustað Norður- og Austurland og aukið úrvalið fyrir erlenda gesti sem með okkur fljúga.“

Hvort af verður og þá hvenær er óljóst á þessu stigi að sögn Þorvaldar en sjálfur segist hann ekki í vafa um að íbúar Austurlands séu spenntir fyrir beinum ferðum erlendis og því sé enginn vafi á að það sé spennandi kostur fyrir flugfélag að bjóða slíkt.

„Við höfum alveg orðið vör við að margir Austfirðingar eru að fljúga með okkur frá Akureyri reglulega enda minna vesen að keyra þangað fyrir marga en fara suður og þaðan áfram.“

Sem kunnugt er hafa stöku innlendar ferðaskrifstofur boðið þetta eina til fjórar ferðir beint frá Egilsstöðum árlega síðustu árin og þær ferðir undantekningarlítið verið fullbókaðar vel fram í tímann og jafnvel verið biðlisti eftir stöku ferðum. Þorvaldur segist meðvitaður um þá sögu og það muni hafa áhrif þegar og ef Niceair býður slíkt síðar á árinu.

Vélar frá Niceair flugu sérferðir frá Egilsstöðum fyrr í vetur en ef að líkum lætur verða vélar þeirra algengari hér á flugvellinum í framtíðinni. Mynd GG