Skip to main content

Ingibjörg Þórðardóttir: Finnum að fólk hugsar til okkar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2023 18:01Uppfært 27. mar 2023 18:09

Ingibjörg Þórðardóttir, íbúi í Neskaupstað, segir marga íbúa vera slegna eftir að snjóflóð féll á byggðina í morgun og það ýfa upp minningar frá mannskæðum flóðum í desember 1974. Hún segir rýmingaraðgerðir í morgun hafa gengið vel.


„Við búum í einu efsta húsi bæjarins, sem var meðal þeirra sem fyrst voru rýmd í morgun,“ segir Ingibjörg.

Minnst þrjú snjóflóð hafa fallið við Neskaupstað í morgun, þar af eitt á fjölbýlishús við Starmýri. Ekki urðu alvarleg slys á fólki en ljóst að eignatjón er töluvert. Ingibjörg býr með fjölskyldu sinni í Valsmýri 5, efsta húsi bæjarins aðeins utar. Þar eru heldur ekki varnargarðar.

Hennar fólk hafði fylgst með veðurspám í gær og var viðbúið fannfergi, þótt þá hafi ekki verið talin ástæða til að óttast snjóflóð í byggð. „Við stilltum vekjaraklukkurnar heldur fyrr því við sáum fram á að það yrði ófært þannig við yrðum að ganga í vinnuna og höfðum skóflur til taks.

Síðan koma skilaboð frá almannavörnum. Við kveiktum á Ríkisútvarpinu, eins og á að gera í svona tilfellum og fylgdumst þar með með þegar byrjað var að rýma og heyrðum að það ætti að rýma hjá okkur.

Við tryggðum að ekki væri fólk í norðurhluta hússins og fórum að pakka í töskurnar. Þegar við vorum búin að því var bankað og spurt hvort við værum tilbúin að fara, við yrðum sótt eftir nokkrar mínútur. Eftir tíu mínútur kom björgunarsveitarbíll og við hlupum beint út í hann. Annað fólk tók gæludýrin með sér. Það voru einir fjórir hundar í bílnum. Í fjöldahjálparmiðstöðinni í Egilsbúð voru mörg gæludýr.

Við skráðum okkur inn þar en spurðum fljótlega hvort við mættum fara til dóttur okkar í Hlíðargötu. Skipulagið í Egilsbúð var gott og við höfðum þar ekkert sérstakt hlutverk. Hlíðargatan var þá ekki á rýmingarsvæði. Við fengum leyfi og löbbuðum enda hvergi að fara yfir hættusvæði. Það tók okkur sex mínútur,“ segir Ingibjörg.

Þurfti að rýma aftur


Ingibjörg segir fólkið, sex fullorðnar manneskjur og tvö börn, hafa verið þar í góðu yfirlæti. Áhyggjur voru af hænum í kofa við húsið. Kofinn var mokaður upp og reyndust hænurnar við hestaheilsu. „Aðalstemmingin var að svara síma og skilaboðum. Margt fólk, ættingjar og vinir sem búa annars staðar, hafa hringt eftir fréttum. Við finnum að fólk hugsar til okkar. Annars vorum við dálítið út úr og höfum fylgst með fréttum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.“

Það ástand átti eftir að breytast, um klukkan tvö var ákveðið að rýma líka húsið í Hlíðargötu og rúta kom til að sækja fólk til að fara í fjöldahjálparmiðstöðina í Egilsbúð. Þegar Austurfrétt ræddi við hana aftur á sjötta tímanum sagði hún að verið væri að koma fólk í gistingu og það virtist ganga vel því fljótt fækkaði í húsinu. Áhersla hafi verið á eldra fólk og fólk með ung börn. Fjölskylda Ingibjargar er sjálf komin með skjól í húsnæði samstarfskonu hennar sem er á ferðalagi. „Við fengum skilaboð frá henni þar sem hún bauð okkur húsið sitt. Hér er boðið upp á kvöldmat, sem við ætlum að þiggja og fara svo í húsið.“

Sjálf bjó Ingibjörg í áratug í öðru húsanna sem fékk á sig mest af flóðinu í morgun. „Við höfum séð snjóflóð úr þessum giljum. Ég man eftir flóði úr sama gildi og í morgun sem stoppaði á túninu rétt fyrir ofan. Ég man eftir flóði ofar sem fór nánast að efstu húsunum.

Ég er alin upp þarna á Mýrunum. Ég man eftir að fólkið var ánægt þegar það smá spýjur úr giljunum því það þýddi að þau væru að hreinsa sig í smá skömmtum frekar en snjórinn safnaðist upp og kæmi niður í stóru flóði.“

Vekur upp erfiðar minningar


Ingibjörg segir atburði dagsins leggjast misjafnlega á Norðfirðinga. Í Egilsbúð í morgun hafi hún hitt fólk sem hafi búið í fjölbýlishúsunum og verið mjög slegið enda vaknað upp við að rúður sprungu undan höggbylgju. Eins hafi snjóflóðin rifjað upp erfiðar minningar úr snjóflóðunum 1974.

„Við erum ekki fólk sem munum eftir atburðunum 1974 og erum róleg. Ég hef ekki fundið fyrir ótta nema ég fékk ónotatilfinningu þegar systir mín sagðist vonast til að húsið mitt stæði enn í lok dags. Ég hafði ekki hugsað út í það, við hlýddum bara fyrirmælum í morgun.

Þetta ýfir sárin upp hjá mörgum. Ég veit um fólk sem lenti illa í flóðinu þá, missti til dæmis ættingja og á mjög erfitt. Ég held að mörgu fólki líði mjög illa. Þetta eru hálf súrrealískar aðstæður og það er skrýtin tilfinning að hús undir varnargörðunum séu rýmd. Þessi dagur hefur verið á við fimm.“

Hún segir andrúmsloftið í Egilsbúð seinni partinn hafa verið ágætt. „Hér hefur stór hluti bæjarbúa verið. Sum spila, önnur prjóna. Síðan er hækkað í botn þegar útvarpsfréttirnar byrja.“

ingibjorg 3 web

ingibjorg 4 web

ingibjorg 2 web

ingibjorg 1 web