Skip to main content

Innviðaráðherra staðfestir strandsvæðaskipulag fyrir Austfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2023 09:56Uppfært 03. mar 2023 09:58

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra innviða, hefur formlega staðfest tillögu svæðisráðs að fyrsta Strandsvæðaskipulagi Austfjarða sem er fyrsta skipulag sinnar tegundar og tekur til fjarða og flóa við landsins strendur.

Fjölmargir aðilar komu að undirbúningi málsins en það voru sérstaklega skipuð svæðisráð sem lögðu línurnar. Í svæðisráðinu sátu einstaklingar frá sveitarfélögum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá þremur ráðuneytum. Þess utan var sérstakur samráðshópur þeim til aðstoðar.

Ráðherrann sagði af þessu tilefni að með skipulaginu yrði til mikilvægt nýtt stjórntæki sem gefur góða yfirsýn yfir alla þá starfsemi sem fer fram á umræddu svæði. Í tilfelli Austurlands nær svæðið frá Hvítingum í suðri til Almenningsfles í norðri en ekki þótti ástæða til að hafa Borgarfjörð eða Vopnafjörð með í skipulagsferlinu.

Ég fagna þeim áfanga að strandsvæðisskipulag hefur verið staðfest hvort tveggja fyrir Austfirði og Vestfirði. Með þessu er lagður grunnur að nýtingu og vernd fyrir svæðin sem býr til ákveðinn fyrirsjáanleika og leiðbeiningar um nýtingu og vernd þeirra. Líkt og við skipulagsgerð á landi þarf jafnan að huga að fjölbreyttum hagsmunum íbúa, atvinnuvega, siglinga og fjarskipta og tryggja skynsamlegt jafnvægi milli nýtingar og verndunar. Við erum nú að taka fyrstu skrefin varðandi strandsvæðisskipulag en rétt er að taka fram að vinna við áhættumat siglinga stendur enn yfir á tilteknum svæðum.“

Allar athugasemdir teknar til skoðunar

Töluvert var deilt á tillögurnar þegar þær voru kynntar opinberlega síðastliðið sumar eins og Austurfrétt fjallaði um og alls bárust tæplega hundrað formlegar athugasemdir til Skipulagsstofnunar í kjölfarið. Svæðisráð fór yfir allar þær athugasemdir sem komu frá stofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum og gerði breytingar á tillögunum í tilfellum. Að sama skapi voru villur sem fram komu í upphafi færðar til betri vegar.

Strandsvæðaskipulagið mun öðlast gildi um leið og það verður birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á myndinni má sjá Magnús Jóhannesson, formann svæðisráðanna, og Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra, þegar skipulagið hlaut staðfestingu. Mynd Stjórnarráðið