Skip to main content

Íslensku hreindýrin nánast sjúkdómafrí samkvæmt nýrri rannsókn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2023 11:37Uppfært 31. jan 2023 13:20

Nánast í fyrsta skiptið hefur farið fram rannsókn á veirusýkingum í íslenska hreindýrastofninum og niðurstöðurnar sýna glögglega að í þeim íslensku eru mun færri sníkjudýr og vírusar en reyndin er erlendis. Dýrin séu í reynd nánast sjúkdómafrí.

Rannsókn þessi var gerð af norskum vísindamönnum með dyggri aðstoð sérfræðinga Náttúrustofu Austurlands á árunum 2017 til 2019 en niðurstöðurnar birtust í ritrýndu tímariti fyrr í mánuðinum. Einn þeirra sem lagði Norðmönnunum lið við þessa rannsókn var Skarphéðinn G. Þórisson. Hann segir að þetta sé því sem næst í fyrsta sinn sem þetta sé rannsakað hérlendis.

„Það kom í ljós að íslensku hreindýrin eru laus við veirur og sjúkdóma sem herja á dýrin erlendis í Noregi en það fundust reyndar mótefni gegn svokölluðum pestivírus í einu sýni. Yfir helmingur hreindýranna þar í landi eru með þann vírus en ekkert er vitað um hvort sá getur valdið einhverjum búsifjum.“

Skarphéðinn segir gott að fá niðurstöður úr rannsókninni enda hafi lítið verið til af gögnum um sjúkdóma í hreindýrum hingað til. Þær rannsóknir sem hafi farið fram hafi beinst að sníkjudýrum á borð við orma en ekki vírusum sem geti verið flóknara að rannsaka.

Aðspurður hvort það sé ekki eðlilegar niðurstöður meðal dýra sem hafa verið einangruð á Íslandi um áratugaskeið segir Skarphéðinn það ekki endilega vera.

„Það er erfitt að meta því enginn veit hvort eða hvað upprunalegu dýrin sem hingað voru flutt báru með sér og þá hvort slíkt hafi hreinsast úr stofninum síðan. Þannig að það er afar gott að fá svona rannsókn og ganga úr skugga um það.“