Ísköld og hvít jól eystra

Rúmlega 26 gráðu frost mældist á Brú á Jökuldal skömmu eftir hádegi á aðfangadag. Víðar í fjórðungnum er mjög kalt.

Hitamælirinn á Brú fór niður í -26,2°C á Brú klukkan tvö í dag. Næst mesti kuldi á landinu mældist á Egilsstaðaflugvelli upp úr hádeginu, -24,2 gráður. Þar hefur frostþoka legið yfir.

Víða á svæðinu má sjá tveggja stafa frostölur, til dæmis -19 á Hallormsstað, -17 á Vopnafirði -16 á Fáskrúðsfirði, -14 á Seyðisfirði og -13 á Reyðarfirði. Heldur hlýrra er á annesjum þegar sunnar dregur, -10 á Teigarhorni og aðeins -6 á Kambanesi.

Mesta frost sem mælst hefur á Íslandi er -38 gráður í janúar árið 1918 á Grímsstöðum í Möðrudal á Fjöllum. Því má halda til haga að mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík er -24,5 gráður, einmitt á sama tíma og frostmetið var sett á Fjöllum.

Eftir blautan nóvembermánuð kólnaði í veðri fyrir austan í byrjun desember og síðan hefur snjóað, einkum í byrjun þessarar viku. Veðrið hefur síðan róast, hætt að snjóa en kólnað duglega.

Frostið er töluvert meira en fram hafði komið í spám Veðurstofunnar. Samkvæmt þeim ætti heldur að draga úr því. Heldur hlýnar á morgun og færist hitinn þá nær frostmarki þegar líður á daginn en að sama skapi er þá von á snjókomu og vindi. Á mánudag er síðan aftur spáð meira en 10 stiga frosti.

Horft yfir Egilsstaði eftir hádegi í dag þegar þokunni létti og hlýnaði mjög lítillega í veðri. Mynd: Jóhann Hjalti 

Horft úr Fellabæ að Egilsstöðum um hádegisbilið. Mynd: Björgvin Gunnarsson 

frost egs 24des lubbi web






Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.