Skip to main content

Ítreka fyrir fólki að fara ekki of nálægt rostungnum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. feb 2023 18:33Uppfært 24. feb 2023 18:36

Matvælastofnun, sem fer með málefni villtra dýra í landinu, hefur ítrekað fyrir fólki að gefa rostungnum sem gert hefur sig heimakominn á Breiðdalsvík í dag frið og virða fjarlægð við hann. Æstir rostungar geta reynst mannfólki hættulegir.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér nú undir kvöld. Þar kemur fram að dýralæknir hafi farið og skoðað rostunginn í dag.

Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að dýrið sé slasað en það útilokar ekki að það finni einhvers staðar til. Eins gæti það verið að hvíla sig eftir langt ferðalag og átök.

Matvælastofnun brýnir fyrir fólki að halda minnst 50-100 metra fjarlægð frá dýrinu og alls ekki fara nær því en sem nemur 20 metrum. Dýrið stressast þegar komið er inn fyrir 50 metrana og getur orðið mjög stressað þegar komið er nær en 20 metra. Slíkt getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan.

Sé rostungur farinn að hvæsa er hann löngu orðinn mjög stressaður.

Þótt rostungar virðist svifaseinir þegar þeir samt hreyft sig hratt og valdið miklum skaða á fólki eða dýri með höggtönnunum, telji þeir sér ógnað. Eins geta þeir borið smitefni sem hættulegt er mönnum.

Mynd: Elís Pétur