Skip to main content

Jákvæð afkomuviðvörun frá Síldarvinnslunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2022 10:03Uppfært 30. des 2022 10:04

Síldarvinnslan í Neskaupstað sendi í morgun frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar um að áætlaður hagnaður verði töluvert meiri en ráð var fyrir gert.


Þar segir að í áætlunum frá fyrri hluta ársins hafi verið gert ráð fyrir að EBITDA, það er hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármunagjöld, yrði á bilinu 86-96 milljónir Bandaríkjadala eða 12,2-13,7 milljarðar íslenskra króna. Spáin hefur nú verið uppfærð í 96-105 milljónir dala eða 13,7-15 milljarða króna.

Rakið er að útgerð og vinnsla hafi almennt gengið vel á árinu en síðustu mánuði hafi óvænt jákvæð atriði bæst við, svo sem meiri afli og hærra verð á fiskimjöli og lýsi en ráð var fyrir gert.

Kolmunni hafi verið veiddur inn á næsta ár eins og heimilt var, en kolmunnakvóti næsta árs er mjög stór. Þá hófust loðnuveiðar nú í desember, en ekki var gert ráð fyrir því í áætlunum.

Að auki hefur Vísir hf. í Grindavík, sem Síldarvinnslan gekk frá kaupum á í júlí, verið hluti af uppgjöri samstæðu Síldarvinnslunnar frá 1. desember.

Bent er á að sveiflur geti verið miklar í sjávarútvegi og erfitt að ná utan um allar breytur í áætlanagerð. Tölurnar geta enn tekið breytingum en endanleg ársniðurstaða á að verða birt þann 9. mars.