Skip to main content

Jón Björn: Samfélagið hefur staðið saman sem eitt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2023 07:19Uppfært 28. mar 2023 07:22

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir það hafa verið óþægilega tilfinningu að vakna til kynningar um að snjóflóð hefðu fallið á Neskaupstað í gærmorgunn. Þótt íbúar séu meðvitaðir um hættuna sem þeir búi við sé alltaf erfitt að takast á við hana þegar hún sýni sig á áþreifanlegan hátt.


Þetta kemur fram í pistli sem Jón Björn birti á vef Fjarðabyggðar í gærkvöldi. Þrjú snjóflóð féllu við Neskaupstað í gærkvöldi, þar af eitt á íbúðarhús við Starmýri. Þar var í kjölfarið gripið til umfangsmikilla rýminga auk þess sem hús voru rýmd á Eskifirði vegna snjóflóðahættu.

Jón Björn segir rýminguna hafa gengið vel og stórkostlegt hafi verið að fylgjast með hvernig samfélagið hafi staðið saman sem eitt. Alltaf megi þó eitthvað gera betur í stórum viðburðum, til dæmis í upplýsingagjöf. Viðbragðsaðilar hafi þó brugðist hratt við og færir Jón Björn þeim sem hafi komið að aðgerðunum þakkir.

Jón Björn segir mestu skipta að búið sé að koma öllum af hættusvæði í burtu og í öruggt skjól fyrir nóttina. Almennt hafi bæði íbúar og viðbragðsaðilar mætt atburðunum af æðruleysi og dugnaði, sem skipti sköpum.

Pistlinum lýkur Jón Björn á áréttingu um að atburðir sem þessi sýni mikilvægi þeirra varnarmannvirkja sem reist hafi verið undanfarin ár og að þau sem enn eru á teikniborðinu rísi sem fyrst. „Á það treystum við eftir atburði dagsins.“

Frumhönnun varnarmannvirkja fyrir svæðið sem snjóflóðin féllu á í gær var kynnt í byrjun mánaðarins en framkvæmdir eru enn ótímasettar.