Jóna Árný: Borist mörg falleg skilaboð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. feb 2023 12:27 • Uppfært 22. feb 2023 12:28
Jóna Árný Þórðardóttir, sem í gær var ráðin bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir mörg spennandi tækifæri framundan hjá sveitarfélaginu. Hún kveðst skilja sátt við Austurbrú eftir níu ára starf þar.
„Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir mig sem stjórnanda að taka við í svona öflugu sveitarfélagi.
Ég þekki sveitarfélagið vel frá fyrri tíma sem fjármálastjóri þess auk þess sem ég starfað í samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi í níu ár og þar tekið þátt í ýmiss konar stefnumörkun og framtíðarsýn fyrir svæðið í heild.
Ég hlakka til næstu skrefa og nýrra verkefna, sem sum eru ekki mjög ný heldur hef ég tengst þeim úr annarri átt,“ segir Jóna Árný.
Austurbrú á allt öðrum stað
Umskiptin báru brátt að. Á mánudagsmorgunn tilkynnti Jón Björn Hákonarson að hann myndi láta af störfum sem bæjarstjóri um næstu mánaðamót. Seinni partinn í gær var tilkynnt að Jóna Árný hefði þekkst boð um að taka við.
„Þetta gerðist allt ofboðslega hratt, að taka ákvarðanir og upplýsa þannig þetta var strembinn sólarhringur. Ég þurfti aðeins að setjast niður og hugsa og þá fór margt í gegnum hugann, að átta mig á hver mín staða væri og hvort ég væri tilbúin að taka við öðru spennandi verkefni.
Sem framkvæmdastjóri Austurbrúar hef ég tekið þátt í að byggja upp stofnunina undanfarin níu ár. Þegar ég fór að hugsa hvar stofnunin væri stödd var það niðurstaða mín að hún væri öflug, vel mönnuð fólki með skýra sýn þannig að framkvæmdastjóri Austurbrúar tekur við allt öðru verkefni en ég fyrir níu árum.“
Fyrsta mál að ná yfirsýn
Á reglubundnum stjórnarfundi Austurbrúar í gær óskaði Jóna Árný eftir að verða leyst undan störfum til að geta tekið við bæjarstjórastöðunni. Stjórn samþykkti það strax með velfarnaðaróskum. Stjórnin ákvað strax að auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra og er það meðal verkefna Jónu Árnýjar í vikunni að undirbúa auglýsinguna. Ekkert liggur enn fyrir um nákvæmlega hún tekur við bæjarstjórastöðunni en allir aðilar hafa lýst vilja til að vistaskiptin gangi hratt og vel fyrir sig.
Jóna Árný kveðst annars hafa mætt til vinnu á venjulegum tíma í morgun og gengið í sín verk. Hún segir fyrstu viðbrögð við tíðindunum frá í gær hafa verið jákvæð. „Ég hef fengið gríðarlega mikið af fallegum skilaboðum bæði af Austurlandi og víðar. Mér finnst ofboðslega vænt um þau. Fólk er spennt með mér, það á við um stjórn Austurbrú sem aðra sem ég hef talað við síðan þetta var gert opinbert.“
Aðspurð um fyrstu verkefnin hjá Fjarðabyggð svarar Jóna Árný: „Fyrsta skrefið verður að setjast niður og ná yfirsýn á stöðu mála. Að ræða við helstu stjórnendur Fjarðabyggðar um hvað hafi verið unnið með og hvar verkefnin séu stödd. Það liggja fyrir ýmsar áætlanir og stefnur fyrir þetta ár hjá sveitarfélaginu. Ég tek stöðuna á því fyrst áður en við ákváðum hvað gerist svo.“
Mynd: Austurbrú