Jóna Árný nýr bæjarstjóri Fjarðabyggðar
Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, verður næsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Frá þessu var gengið í dag en Jón Björn Hákonarson tilkynnti í gær að hann myndi láta af störfum um næstu mánaðamót.„Við erum mjög spennt fyrir þessari ráðningu. Það er gott að ekki sé tómarúm lengi og að fá manneskju sem þekkir til og getur komið beint inn í málin,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs og oddviti Fjarðalistans í samtali við Austurfrétt.
Jóna Árný kemur frá Norðfirði. Hún er löggiltur endurskoðandi og starfaði sem ráðgjafi hjá KPMG árin 2005-8, síðan sem fjármálastjóri Fjarðabyggðar í tvö ár, síðan önnur tvö ár í innri endurskoðun Alcoa Fjarðaál. Hún starfaði síðan sjálfstætt þar til hún varð framkvæmdastjóri Austurbrúar vorið 2014.
Meirihluti Fjarðalista og Framsóknarflokks í Fjarðabyggð vill koma á framfæri þökkum til Jón Björns fyrir hans framlag, en samstarf við hann hefur verið af gott. Við hefðum gjarnan kosið að hann hefði haldið áfram í starfi sínu, en styðjum hann engu að síður heilshugar í ákvörðun sinni. Ákvörðun Jóns mun ekki hafa nein áhrif á meirihluta samstarf flokkanna sem stendur sterkt.
Jóna Árný hefur víðtæka stjórnunarreynslu og sérþekkingu á sviði rekstrar, fjármála og þróunar en hún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Austurbrúar með góðum árangri. Þar á undan var hún meðal annars um tíma fjármálastjóri Fjarðabyggðar og býr þar af leiðandi yfir þekkingu á innviðum sveitarfélagsins. Meirihluti Fjarðalista og Framsóknarflokks hlakkar til komandi samstarfs við Jónu Árný og horfir björtum augum til komandi tíma,“ segir í tilkynningu meirihlutans frá í dag
Gengið verður endanlega frá ráðningarsamningi Jónu Árnýjar á næstu dögum og hann síðan lagður fyrir bæjarstjórn til formlegrar samþykktar. Ekki hefur endanlega frá því hvenær Jóna Árný komi til starfa en það skýrist á næstu dögum.
Um leið og Jón Björn lýkur störfum sem bæjarstjóri fer hann í leyfi frá bæjarstjórn en hann var oddviti Framsóknarflokksins í síðustu fernum kosningum. Fjarðalistinn á núna bæði formann bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar.
„Við munum ræða hlutverkaskiptinguna frekar síðar. Fyrsta skrefið er að ráða inn bæjarstjóra,“ segir Stefán Þór aðspurður um hvort stokkað verði frekar upp í embættaskipan meirihlutaflokkanna við þessi umskipti.
Mynd: Austurbrú