Orkumálinn 2024

Kanna hugsanleg áhrif vindmylla við Lagarfljót á fuglalíf næstu mánuði

Náttúrustofa Austurlands (NA) mun næstu átta mánuði stunda fuglarannsóknir á svæði því hjá Lagarfljótsvirkjun þar sem  Orkusalan hyggst reisa tvær vindmyllur á næstu árum.

Þetta kom fram á sérstökum forsamráðsfundi hagsmunaaðila vegna málsins en Skipulagsstofnun stóð fyrir fundinum. Umræddar tvær vindmyllur verða að líkindum þær fyrstu sem rísa á Austurlandi öllu ef áætlanir standast en þær eiga samanlagt að framleiða 9,9 MW af raforku í framtíðinni. Orkusalan hyggst leggja fram matsáætlun sína til stofnunarinnar fljótlega.

Múlaþing gaf fyrir sitt leyti grænt ljóst á skipulagsbreytingar vegna þessa fyrir nokkru en fram kom í máli Sigurðar Jónssonar, skipulagsfulltrúa, að menn kjósi þó að umhverfismatsferli ljúki áður en frekari skref verða tekin af hálfu sveitarfélagsins.

Nokkur ljón eru þó enn í veginum og þar helst að krafa er um ítarlegar fuglarannsóknir á þessu svæði og munu fræðingar NA sjá um þær rannsóknir sem hófust í þessum mánuði og standa alveg fram í október. Í máli fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ), Kristins Hauks Skarphéðinssonar, var meðal annars vikið að því að hugmyndir Orkusölunnar um hvernig fuglarannsóknum skuli háttað eigi en þær miðast við erlend viðmið, eigi illa við í þessu tilviki. Grunnþekking á fuglalífi hérlendis væri mun minni en í helstu nágrannalöndum og því ættu viðmið utanfrá ekki að öllu leyti við hér.

Til dæmis telur EFLA, sem skipuleggur verkefnið fyrir Orkusöluna, ekki þörf á radarmælingum vegna umferðar fugla en NÍ er því ósammála. Ljóst sé að mikil umferð fugla sé við Fljótið þar sem vindmyllurnar eiga að rísa og á svæðinu sé meðal annars að finna hinn alfriðaða lóm sem bæði verpir á þessu svæði og á þar jafnvel vetrarstöðvar.

Vindmyllurnar tvær eiga að rísa í námunda við Lagarfossvirkjun og samnýta tengivirki hennar til að auka raforkugetuna frá svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.