Keppendur VA í Gettu betur ætla að ná lengra en á síðasta ári
Annað kvöld, ef að líkum lætur, mæta keppendur Verkmenntaskóla Austurlands (VA) liði Fjölbrautarskólans í Ármúla (FÁ) í átta liða úrslitum Gettu betur á RÚV. Liðið staðráðið í að hefna harma frá síðasta ári.
Það töluverð tíðindi að lið VA skuli annað árið í röð komast í sjónvarpsútsendingu Gettu betur en annað kvöld verður það aðeins í annað skipti í 20 ár sem það tekst. Einungis bestu átta liðin í útvarpskeppninni komast í sjónvarp allra landsmanna. Keppendur VA afrekuðu það í fyrra og aftur nú.
Önnur lið sem komust þetta langt að þessu sinni eru lið Menntaskólans í Reykjavík sem mætir Verzlunarskóla Íslands, Fjölbrautarskóli Suðurlands mætir Flensborgarskóla og Tækniskólinn etur kappi við lið Fjölbrautarskólans í Garðabæ. Lið VA því aðeins annað af tveimur skólum utan höfuðborgarsvæðisins sem kemst í sjónvarpsútsendingu þáttarins.
Ingibjörg Þórðardóttir, kennari og þjálfari liðs VA, segir teymið klárt í slaginn eftir miklar æfingar síðan snemma í vetur.
„Við höfum tekið þetta af mikilli alvöru og æfum tiltölulega stíft. Nú er eina málið hvort við komumst á staðinn á réttum tíma því við erum að fá meldingar frá Icelandair um að hugsanlegar frestanir og tafir á morgun. Eins og staðan er nú er hluti hópsins að komast í flug um 9-leytið, aðrir þurfa að bíða næstu vélar á eftir og við verðum bara að bíða og vona hvað verður. Ef eitthvað fer alvarlega úrskeiðis þarf RÚV að ákveða hvað gera skuli en við auðvitað vonum það besta. Við erum, í öllu falli, klár í slaginn annað kvöld.“
Keppendur VA að undirbúa sig undir átökin annað kvöld. Liðið samanstendur af Ágústu Völu Viðarsdóttur og tvíburabræðrunum Geir Sigurbirni og Ragnari Þórólfi Ómarssonum.