Knattspyrna: KFA vann Hött/Huginn í fyrstu umferð Lengjubikarsins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. feb 2023 13:57 • Uppfært 23. feb 2023 13:57
Knattspyrnufélag Austfjarða vann Hött/Huginn 3-0 þegar liðin mættust í fyrstu umferð Lengjubikars karla í knattspyrnu á laugardag. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.
Mykolas Krasnovsksis kom KFA yfir á 27. mínútu, Vice Kendes skoraði annað mark á 36 mínútu og Marteinn Már Sverrisson það þriðja í uppbótartíma. Það tíðindaverðasta í seinni hálfleik var að Ólafur B. Hallgrímsson fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða í uppbótartíma seinni hálfleiks.
Nokkrar breytingar hafa orðið á KFA frá síðasta sumri. Stærst eru þjálfaraskipti þar sem Mikael Nikulásson hefur tekið við af Brynjari Skúlasyni.
Þá varð það ljóst nýverið að tveir fyrrum leikmenn Leiknis snúa aftur á heimaslóðir. Arek Grzelak, fyrrum fyrirliði Leiknis, spilaði með Magna á Grenivík síðasta sumar. Hann var með í leiknum um helgina. Unnar Ari Hansson hefur síðustu tvö ár spilað með Þrótti Vogum. Hann var ekki í hópnum gegn Hetti/Huginn.
Ljóst er að talsverðar breytingar eiga enn eftir að verða á liðum fyrir sumarið enda Lengjubikarinn á vissan hátt æfingamót fyrir Íslandsmótið. Þannig var aðeins einn erlendur leikmaður í hópi Hattar/Hugins um helgina.
Tvö önnur austfirsk lið spila í Lengjubikarnum. Karlalið Spyrnis hefur leik eftir tvær vikur en kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis tekur á móti Grindavík um næstu helgi.